Atvinnuleysi þokast líkast til upp á við meðan ferðamenn eru sendir í sóttkví við komuna til landsins, en það minnkar hratt eftir að landið verður opnað að nýju. Þetta kemur fram í spá sem Hagfræðistofnun hefur birt.

Hagfræðistofnun telur þrennt stuðla að því að atvinnuleysi geti minnkað hratt. Í fyrsta lagi sé ekki ástæða til að ætla annað en að ferðalög hefjist af krafti þegar ferðahömlur eru úr sögunni. Í öðru lagi séu sumir þeirra sem áður unnu við ferðaþjónustu að sinna öðru eða farnir úr landi. Og í þriðja lagi ýti lækkun krónunnar undir eftirspurn eftir innlendri framleiðslu.

Í sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að fallið verði í einu vetfangi frá kröfu um sóttkví í júlí 2021. Árið 2020 hefur rúmum fimm prósentum vinnuafls skort vinnu að jafnaði, en í spánni er gert ráð fyrir að hlutfallið verði að jafnaði um sjö prósent á fyrri hluta árs 2021 og að það fari hæst í níu prósent í maímánuði.