Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi aukist í janúar og verði á bilinu 11,3 prósent til 11,7 prósent. Almennt atvinnuleysi mældist 10,7 prósent í desember og jókst því aðeins um 0,1 frá því í nóvember.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við Fréttablaðið að spár stofnunarinnar um aukið atvinnuleysi í janúar haldist í hendur við árstíðabundið atvinnuleysi.

„Við erum ekki endilega að spá fleiri uppsögnum. Það er alltaf hækkun á atvinnuleysi í janúar, meira að segja í mestu góðærum eykst atvinnuleysi í janúar. Það dettur til dæmis mikið niður í byggingariðnaði sem hefur mikið að segja," segir Unnur.

Spár stofnunarinnar taki því fremur tillit til þessa en að fleirum verði sagt upp. „ Eins og staðan er núna er erfitt að spá fyrir um hvort að áhrif Covid-19 á vinnumarkaðinn hafi náð hámarki. Við þurfum að skoða janúarmánuð til að segja til um það," bætir Unnur við.

Almennt atvinnuleysi var sem fyrr segir 10,7 prósent í desember og jókst úr 10,6 prósent í nóvember, en atvinnuleysi jókst mun meira á milli mánuðina þar á undan. Það mældist 9,9 prósent í október, 9,0 prósent í september og 8,5 prósent í ágúst. Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli var svipað í desember og í nóvember eða um 1,4 prósent.

Unnur segir að þetta hafi verið í takt við spár stofnanarinnar.

„Við bjuggumst ekki við að atvinnuleysi myndi aukast mikið í desember. Desember er ekki slæmur mánuður, það er alltaf einhver tilfallandi vinna í boði sem tengist jólunum og verslun."

Erlendir ríkisborgarar muni halda þetta út

Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er nú um 41 prósent af heildaratvinnuleysi. Erlendir atvinnuleitendur í almenna atvinnuleysiskerfinu voru 8.728 í lok desember. Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá án minnkaðs starfshlutfalls komu frá Póllandi eða 4.262 sem er um helmingur allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Því næst koma Litháar, Lettar og Rúmenar en færri af öðrum þjóðernum. Stór hluti þessa fólks starfaði hjá fyritækjum í ferðaþjónustu.

Unnur á ekki von á því að at­vinnu­leysi meðal er­lendra ríkis­borgara eigi eftir að aukast.

„Þetta hefur verið pró­sentan í langan tíma og ég býst ekki við að hlutur þeirra aukist til muna héðan í frá."
Að­spurð segist hún ekki eiga von á því að er­lendir ríkis­borgarar muni flytja úr landi vegna á­standsins.

„Þetta er auð­vitað mikið af fólki sem er án at­vinnu núna en það sem gerðist í fjár­mála­hruninu 2008 var að mikið af at­vinnu­leysi hér­lendis var flutt út. Þá fluttu bæði Ís­lendingar og er­lendir ríkis­borgarar til út­landa og fengu vinnu í Noregi og annars staðar. Það er allt annað á­stand núna, það er sama staðan alls staðar og erfitt að fá vinnu hvert sem þú ferð. Ég held að fólk sé hrein­lega að vonast til að fá sömu störfin aftur þegar þetta á­stand líður hjá. Þegar við förum að spyrna okkur frá botninum og fólk fer að ferðast á ný," segir Unnur.

Færri aug­lýst störf í janúar

Alls komu inn 118 ný störf sem aug­lýst voru í vinnu­miðlun hjá Vinnu­mála­stofnun í desember. Unnur segir að líkt og með at­vinnu­leysið þá sé iðu­lega munur á desember og janúar.

„Það eru yfirleitt mun færri störf auglýst á fyrstu mánuðum ársins. Við hjá Vinnumálastofnun höfum farið í átak að auglýsa úrræðið um ráðningarstyrki, þannig að atvinnurekendur geti ráið til sín fólk sem er á atvinnuleysisbótum með styrk frá Vinnumálastofnun. Við vonumst til að þetta muni bjóða upp á fleiri störf næstu mánuðina," segir Unnur að lokum.

Skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn í desember 2020 er hægt að nálgast hér.