Atvinnuleysi í Bandaríkjunum rauk upp í 14,7 prósent í síðasta mánuði, samkvæmt nýjum tölum sem bandaríska vinnumálaráðuneytið birti í dag, og hefur ekki verið hærra frá því í seinni heimsstyrjöldinni.

Um 20,5 milljónir manna misstu vinnuna í landinu í síðasta mánuði í kjölfar útgöngubanns sem var sett til þess að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Í frétt Financial Times er bent á að greinendur hafi gert ráð fyrir að allt að 21,7 milljónir manna hafi orðið atvinnulausir í mánuðinum.

Til samanburðar misstu 870 þúsund Bandaríkjamanna vinnuna í marsmánuði.

Atvinnuleysið, sem var í fimmtíu ára lágmarki áður en faraldurinn skall á af fullum þunga í mars, var nokkuð lægra í síðasta mánuði en hagfræðingar höfðu spáð en þeir höfðu gert ráð fyrir allt að sextán prósenta atvinnuleysi.

Atvinnuleysið mældist 4,4 prósent í mars þegar áhrifa veirunnar fór fyrst að gæta í landinu.

Samkvæmt frétt Financial Times var atvinnuleysi í kringum tíu prósent í fjármálakreppunni á árunum 2008 til 2009 en það er talið hafa farið upp í allt að 25 prósent í kreppunni miklu á árunum 1929 til 1939.

Atvinnuleysi jókst í öllum helstu atvinnugreinum, að sögn bandaríska vinnumálaráðuneytisins, en þó sérstaklega í afþreyingu og gistingu.

Atvinnuþátttaka, sem tekur til allra þeirra sem eru í vinnu eða eru að leita að vinnu, dróst saman um 2,5 prósentustig í apríl vegna samgöngutakmarkana og mældist þá 60,2 prósent.