Verðvísitala atvinnuhúsnæðis hefur lækkað um 21 prósent að raunvirði á milli ára við lok annan ársfjórðungs. Velta dróst saman um nærri 50 prósent að raunvirði á tímabilinu. Þetta kom fram í máli Hauks C. Benediktssonar, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankandi, á fundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun.

Hann sagði að mörg hótel og gistiheimili væru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Fermetrar í byggingu væru 16 prósent af því gistirými sem þegar sé til staðar. Forsendur hluta verkefnanna væru að líkindum brostnar.

Heimsfaraldurinn COVID-19 hefur gert það heimshagkerfið er í djúpri kreppu og þjónusta við ferðamenn á í vök að verjast enda er lítið um ferðalög.

Haukur sagði að horfur væru á að fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu þyrftu að endurskipuleggja rekstur sinn eða hætta starfsemi.

Hann benti á að greiðsluerfiðleikar leigutaka hafi neikvæð áhrif á sjóðstreymi stærstu fasteignafélaganna með atvinnuhúsnæði. Þau hafi hins vegar ná að standa að mestu vörð um lausafjárstöðu sína.

Fjármálastöðugleikanefnd sagði í yfirlýsingu í dag að baráttan við farsóttina væri langdregnari en vonir hafi verið bundnar við sem auki óvissu og hafi neikvæð áhrif á útlánasöfn fjármálafyrirtækja. „Mikilvægt er að fjármálafyrirtæki vinni markvisst að endurskipulagningu útlána og nýti það svigrúm sem aðgerðir Seðlabankans og stjórnvalda hafa skapað til að styðja við heimili og fyrirtæki,“ segir í yfirlýsingunni.