Verið er að leggja lokahönd á stofnun Atvinnufjélagsins, hagsmunafélags sem helgað verður starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Fram kemur í tilkynningu að Atvinnufjélagið muni vinna markvisst og skipulega að hagsmunavörslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og einyrkja í öllum atvinnugreinum.

Undirbúningsstjórn Atvinnufjélagsins skipa þau Arna Þorsteinsdóttir, Auður Ýr Helgadóttir, Elísabet Jónsdóttir, Gunnar Ingi Arnarson, Helga Guðrún Jónasdóttir, Ómar Pálmason, Sigmar Vilhjálmsson og Þorkell Sigurlaugsson.

Sigmar boðaði það í vor að hann væri að vinna að stofnun nýrra samtaka fyrirtækja í samkeppni við Samtök atvinnulífsins. Hann hafi áður varað við hækkunum lægstu launa en vildi nú vinna að því að hækka þau.

Stefna á sæti við samningaborðið

Sigmar segir í samtali við Fréttablaðið að Atvinnufjélagið sé ekki hugsað sem mótvægi við Samtök atvinnulífsins

„Ég myndi segja að við séum að fókusa á þann hluta sem Samtök atvinnulífsins geta ekki endilega beitt sér jafn sterkt í, vegna reglna sinna. Við sjáum okkur miklu frekar til hliðar við þau og stuðning við þau með eingöngu hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja að leiðarljósi,“ segir Sigmar.

Fyrirtæki sem munu eiga aðild geta ráðið því hvort SA eða Atvinnufjélagið komi fram fyrir þeirra hönd í kjaraviðræðum. „Það er engin skylda að yfirfæra kjararéttinn til okkar,“ segir hann. „Við erum að leggja upp með það að þetta félag fái sæti við kjarasamningsborðið af því að kjaramál lítilla og millistórra fyrirtækja eru bara allt annars eðils en hjá stórum fyrirtækjum.“

Í tilkynningunni segir að það hafi skort á sýnileika og hagsmunagæslu hjá þessum hluta vinnumarkaðarins þótt liðlega 70% alls starfsfólks starfi innan hans og um 70% atvinnurekenda telja þörf á slíku félagi.

Þrískiptur tilgangur

Tilgangur og markmið félagsins snýst aðallega um þrjá þætti. Að berjast fyrir einfaldara og sanngjarnara regluverki, að opinberar álögur og gjöld, leyfisveitingar og skattlagning taki mið af stærð félaga og rekstrarumfangi. Bæta aðgengi að fjármagni, vextir og veðkröfur eru litlum og meðalstórum fyrirtækjum mjög íþyngjandi. Og kjaramálum sem þurfi að taka betur mið af hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja m.a. í atvinnugreinum sem voru ekki öflugar fyrir einum til tveimur áratugum svo sem fyrirtæki í ferðaþjónustu, veitingastarfsemi, skapandi greinum, afþreyingu og margs konar nýsköpunarstarfsemi og þjónustu.

Öll fyrirtæki velkomin

Lýðræðisgrunnur félagsins mun byggja á jöfnu atkvæðavægi og hefur hvert fyrirtæki eitt atkvæði óháð stærð, enda eru hagsmunamálin þess eðlis að þau sameina hagmuni allra fyrirtækja af þessari stærðargráðu. Félagsgjald verður hófstillt og skiptist í nokkra gjaldflokka sem tekur mið af fjölda starfsmanna.

Öll fyrirtæki geta orðið félagsmenn í Atvinnufjélaginu svo framarlega sem þau hafa hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja að leiðarljósi.