Nýr íslenskur sparisjóður sem rekinn er samkvæmt hagkvæmri áætlun býður viðskiptavinum upp á ódýrari bankaþjónustu. Einn af stofnendum sjóðsins segist vonast til að aðrir hefðbundnir bankar fari að bjóða sínum viðskiptavinum sambærileg kjör.
Íslenski sparisjóðurinn indó var opnaður formlega í vikunni og er nú þegar kominn með rúmlega átta þúsund viðskiptavini. Indó var stofnaður af Hauki Skúlasyni og Tryggva Birni Davíðssyni með þann tilgang að bjóða fólki upp á öðruvísi bankastarfsemi á Íslandi.
Samkvæmt tilkynningu sem sparisjóðurinn sendi frá sér í vikunni mun indó bjóða upp á debetkortareikninga til að byrja með en aukin þjónusta mun svo bætast við í náinni framtíð. Viðskiptavinir indó geta þar með stundað öll helstu bankaviðskipti líkt og hjá öðrum bönkum um leið og reikningur þeirra er tilbúinn.
„Við erum bara öll pínu auðmjúk yfir því hversu vel þetta hefur gengið. Við erum búin að afnema biðlistann og nú geta allir náð í indó-appið og stofnað reikning á einni mínútu,“ segir Haukur Skúlason, einn af stofnendum indó.
Haukur segist finna fyrir vilja innan samfélagsins til að breyta íslenskri bankastarfsemi. „Hlutirnir breytast ekkert af sjálfu sér þannig að við ákváðum bara að bretta upp ermarnar og breyttum þessu sjálf.“
Við kaupum gjaldeyrinn á ákveðnu gengi og við seljum hann svo til viðskiptavina okkar á nákvæmlega sama gengi
Einn helsti munur á indó og öðrum bönkum er sá að viðskiptavinir indó sleppa til dæmis við öll færslugjöld á debetkortafærslum sínum. Að sama skapi er ekkert gjaldeyrisálag eða önnur falin gjöld en allar innistæður viðskiptavina eru samt sem áður tryggðar upp að 100 þúsund evrum líkt og hjá öðrum bönkum á Íslandi.
„Það er ekkert gjaldeyrisálag sem er oft laumað inn og smurt ofan á þegar þú ert til dæmis að kaupa þér ís úti á Tenerife. Við kaupum gjaldeyrinn á ákveðnu gengi og við seljum hann svo til viðskiptavina okkar á nákvæmlega sama gengi,“ segir Haukur.
Spurður um það hvernig slík bankastarfsemi geti skilað hagnaði útskýrir Haukur að líta þurfi til tveggja meginþátta.
„Í fyrsta lagi eru hefðbundnir bankar með alls konar gjöld, en þeir eru líka með rosalega háan kostnað. Þetta eru fjölmennir vinnustaðir og það erum við ekki. Við erum 15 starfsmenn, ekki 1.500. Við þurfum ekki að flytja stuðlaberg yfir landið til að geta sett utan um húsið okkar. Við erum bara í leiguhúsnæði í Lágmúlanum og þannig náum við að halda þessum kostnaði niðri.“
Haukur bætir við að sem útgefandi Visa-korta sé indó aðili að Visa International og fái þannig tekjur í gegnum veltu á hverri færslu.
„Þegar þú ferð út í búð og kaupir þér eitthvað þá fáum við tekjur af þeirri þóknun sem söluaðilinn greiðir til Visa. Það gerir það að verkum að okkar viðskiptavinir greiða ekki neitt til okkar, en við fáum samt sem áður tekjur af veltunni í gegnum Visa.“
Indó segist vona að með þessum breytingum á markaðnum muni samkeppnisaðilar bregðast við með því að bjóða sambærileg kjör og fella niður færslugjöld. Haukur segir þessi gjöld fyrst og fremst vera ósanngjörn og að hans sögn er stefna indó sú að fólk eigi ekki að þurfa að borga fyrir það að nota launin sín.