Neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu Arion banka á fjórða fjórðungi síðasta árs munu nema um átta milljörðum króna að teknu tilliti til skatta. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem bankinn birti í Kauphöllinni í kvöld. Færa þarf óefnislegar eignir dótturfélagsins Valitors niður um fjóra milljarða króna.

Í tilkynningu Arion banka til Kauphallarinnar er þó tekið fram að áhrifin á eiginfjárhlutföll bankans séu óveruleg. Hlutföllin séu áfram sterk.

Afkoma bankans á síðasta ári, að teknu tilliti til áhrifa af aflagðri starfsemi og eigna til sölu, er um einn milljarður króna.

Neikvæð áhrif á fjórðungnum skýrast einkum af tveimur þáttum, að sögn bankans.

Annars vegar fela niðurstöður virðisrýrnunarprófa á óefnislegum eignum Valitors það í sér að færa þarf eignirnar, sem tengjast að miklu leyti alrásarlausnum (e. omni-channel solutions) félagsins, niður um fjóra milljarða króna. Mun virðisrýrnunin endurspeglast í afkomu af eignum til sölu á fjórða ársfjórðungi hjá Arion banka og kemur til viðbótar við rekstrartap Valitors á fjórðungnum og kostnað við söluferli félagsins, samtals 1,7 milljarð króna.

Kostnaður við endurskipulagningu Valitors upp á 600 milljónir króna, sem ætlað er að styrkja kjarnastarfsemi greiðslufyrirtækisins og snúa við taprekstri, er innifalinn í þeirri fjárhæð.

Eins og kunnugt er hefur stjórn Valitors ákveðið að draga verulega úr fjárfestingu í umræddum alrásarlausnum.

Þar sem um óefnislegar eignir er að ræða hefur niðurfærslan engin áhrif á eiginfjárhlutföll Arion banka. Óefnisleg eign Valitors mun í kjölfar virðisrýrnunarinnar nema um 3,4 milljörðum króna.

Í tilkynningu bankans er áréttað að þær skipulagsbreytingar sem Valitor hafi ráðist í muni draga verulega úr fjárfestingarþörf og rekstrarkostnaði félagsins horft fram á veginn. Þær miði að því að breyta afkomu félagsins úr tapi í rekstrarhagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Fréttablaðið/Ernir

Hins vegar niðurfærir Arion banki eignir Stakksbergs, eignarhaldsfélags um sílikonverksmiðju í Helguvík, og nema áhrifin á afkomu fjórða fjórðungs síðasta árs um 2,3 milljörðum króna að teknu tilliti til skatta.

Í tilkynningu bankans er tekið fram að vegna óvissu á mörkuðum með sílikon hafi nokkrir framleiðendur dregið úr framleiðslu eða lokað verksmiðjum. Því sé til staðar ónýtt framleiðslugeta sem leiða má líkur að hafi neikvæð áhrif á söluferli sílikonverksmiðjunnar í Helguvík.

Niðurfærslan er sögð hafa óveruleg áhrif á eiginfjárhlutföll bankans.

Arion banki nefnir að lokum í tilkynningunni að fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, meðal annars um arðsemi og þróun eigin fjár, haldist óbreytt.