Átta manns hafa gefa gefið kost á sér í fimm manna stjórn Vátryggingafélags Íslands en kosið verður í stjórnina á aðalfundi tryggingafélagsins á fimmtudag. Framboðsfrestur rann út á laugardag.

Þrír núverandi stjórnarmenn, Marta Guðrún Blöndal, Valdimar Svavarsson stjórnarformaður og Vilhjálmur Egilsson, hafa gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, eftir því sem fram kemur í tilkynningu sem VÍS sendi Kauphöllinni á laugardag.

Aðrir frambjóðendur eru Guðný Hansdóttir, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Inness, Ína Björk Hannesdóttir, fjármálastjóri upplýsingatæknihluta Marels, Jón Gunnar Borgþórsson stjórnendaráðgjafi, Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík og Stefán Stefánsson, forstjóri skipafélagsins Cargow BV.

Tilnefningarnefnd VÍS hefur sem kunnugt er lagt til að þau Guðný, Ína Björk, Stefán, Valdimar og Vilhjálmur verði kjörin í stjórn félagsins.

Þá gefa kost á sér í tveggja manna varastjórn þau Jón Gunnar, Már Wolfgang, Ragnheiður H. Magnúsdóttir, forstöðumaður framkvæmda hjá Veitum, og Sveinn Friðrik Sveinsson, fjármálastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.