Atlantsolía, sem er minnsta olíufélag landsins, vinnur að kaupum á bensínstöðvum af Olís, samkvæmt heimildum Markaðarins. Fyrirtækið rekur í dag nítján sjálfsafgreiðslustöðvar á landinu öllu.

Samkeppniseftirlitið setti það sem skilyrði að Olís yrði að selja fimm bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, tvær þjónustustöðvar og þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar, við samrunann við Haga. Þá er einnig gerð krafa um að rekstur og eignir Olís-verslunarinnar í Stykkishólmi sem tengjast dagvörusölu verði seldur. Hagar og Samkeppniseftirlitið undirrituðu sátt þess efnis í september en nú er unnið að því að meta hæfi kaupenda að eignunum. Áætlað er að því hæfismati verði lokið um miðjan næsta mánuð.

Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, vildi ekki tjá sig um viðskiptin við Markaðinn þegar eftir því var leitað.

Fram kom í Markaðnum í janúar að eigendur Atlantsolíu hafi sett fyrirtækið í formlegt söluferli en hætt var við þau áform fyrr á árinu.

Atlantsolía er í eigu Guðmundar Kjærnested og Bandaríkjamannsins Brandons Charles Rose en þeir stofnuðu fyrirtækið sumarið 2002 ásamt Símoni Kjærnested.

Hagnaður Atlantsolíu dróst saman um 56 prósent á milli ára og nam 90 milljónum 2017. Tekjurnar drógust saman um tíu prósent á milli ára og námu 4,2 milljörðum króna í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 10 prósent á árinu og eigið fé var 931 milljón króna. Eiginfjárhlutfallið var 24 prósent við árslok.