Forsvarsmenn Flugfélagsins Atlanta ehf. hafa ákveðið að stofna nýtt flugfélag á Möltu. Hið nýja félag mun skapa frekari vaxtar- og sóknartækifæri fyrir Atlanta þegar sér fyrir endann á Covid-19 heimsfaraldrinum. Flugfélagið, sem hlotið hefur nafnið Air Atlanta Europe, mun styrkja rekstrargrundvöll Atlanta með auknu aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum, þar sem nú ríkir gríðarlega hörð samkeppni.

Atlanta sér fram á að mjög erfitt hefði orðið að koma farþegaflugi félagsins í Sádi-Arabíu í gang aftur að loknum Covid-19 faraldrinum, þar sem félagið þarf að greiða 5% veltuskatt af öllum tekjum þar í landi á meðan helstu samkeppnisaðilar Atlanta eru undanskildir slíkum skatti vegna tvísköttunarsamninga við Sádi-Arabíu. Farþegaflug félagsins þar í landi hefur verið kjölfestan í rekstri Atlanta, en nú sitja allar sjö B747-400 farþegavélar flugfélagsins óhreyfðar á jörðu niðri og að minnsta kosti tvær til þrjár þeirra á leið í niðurrif fljótlega.

Þá segir í tilkynningu að þessar aðgerðir muni opna ennfremur nýja möguleika til sóknar á alþjóðlegum fraktmarkaði með rýmri loftferðasamningum. Eins og staðan er nú er Atlanta til dæmis ekki stætt á að fljúga með frakt milli Kína og Evrópu, einu stærsta markaðssvæði heims.

„Bregðist stjórnendur Atlanta ekki við, sjáum við fram á alvarlegan og varanlegan samdrátt í tekjum flugfélagsins, þar sem flugfélagið er ekki samkeppnishæft á alþjóðlegum vettvangi. Með stofnun Air Atlanta Europe styrkist rekstrargrundvöllurinn með auknu aðgengi að mörkuðum, samkeppnisfæru verði og á sama tíma getum við haldið áfram að nýta hinn frábæra mannauð, þekkingu og sérhæfingu sem félagið hefur byggt upp á Íslandi, enda stendur ekki til að gera neinar breytingar á núverandi rekstri félagsins á Íslandi,“ segir Baldvin M. Hermannsson, forstjóri Flugfélagsins Atlanta ehf.

Störf glatist ekki á Íslandi

Um 200 starfsmenn starfa fyrir Flugfélagið Atlanta ehf. á Íslandi en félagið skilaði á síðasta ári um 7 milljörðum króna til íslenska hagkerfisins. Ekki er fyrirhugað að segja neinum upp í tengslum við stofnun nýja flugfélagsins, enda hin mikla þekking og reynsla sem byggst hefur upp á Íslandi kjölfestan á bak við stofnun nýja félagsins, segir í tilkynningunni.

„Hér eru okkar rætur og hér viljum við vera. Við búum svo vel að starfsfólk okkar hér á landi býr yfir gríðarlegri reynslu og þekkingu af alþjóðlegu leiguflugi og við munum kappkosta að nýta okkur þjónustu frá höfuðstöðvunum í Kópavogi við rekstur flugfélagsins á Möltu,“ segir Baldvin.