Unnið er að þróunarverkefni sem mun gerbylta ásýnd og skipulagi alls nærumhverfis Keflavíkurflugvallar þegar fram í sækir. Svæðið sem um ræðir teygir sig yfir 55 ferkílómetra og nær til alls umhverfis flugvallarins.
Þróunarfélagið Kadeco er félag í eigu ríkisins sem hefur það meginmarkmið að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun og markaðssetningu lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar.
Kadeco verður seint sakað um að tjalda til einnar nætur því í þróunaráætlun félagsins er horft fram til ársins 2050.
Pálmi Freyr Randversson er framkvæmdastjóri Kadeco en hann segir harla óvenjulegt að unnið sé að skipulagsmálum á Íslandi með þessum hætti. Að unnið sé þvert á landfræðilegar línur sveitarfélaga og þarfir sem snerti ólíkan rekstur og atvinnustarfsemi.
„Upphaflega var Kadeco stofnað til að koma eignum sem varnarliðið skildi eftir sig í borgaraleg not, eins og það var kallað. En því verkefni lauk árið 2017.
Í dag erum við með annað hlutverk. Það snýr að því að ná utan um öll skipulagsmálin á svæðinu. Með ólíkum aðilum, sveitarfélögum og svo auðvitað flugvellinum,“ segir Pálmi.
Hann segir engum blöðum um það að fletta að svæðið lúri á gríðarlegum tækifærum ef rétt verður haldið á málum.
„Okkur er falið að koma fram með heildstæða hugsun fyrir allt svæðið. Vegna allra þessara ólíku möguleika sem nálægð við alþjóðaflugvöll býður upp á. Það fóru tíu milljónir farþega um þetta svæði árið 2018. Það er ekkert smáræði.“
Enda segir Pálmi staðsetninguna á milli Evrópu og Ameríku og nálægðina við höfuðborgarsvæðið ákaflega spennandi stöðu. Fyrir utan alla aðra kosti íslensks samfélags svo sem græna orku og almennan sveigjanleika og aðlögunarhæfni.
„Til að átta sig á hvað við erum að gera þá get ég nefnt að við erum að teikna upp hvar nákvæmlega uppbyggingin á að vera. Finna út úr því hvar tiltekin starfsemi á að vera. En við erum líka að skoða uppbyggingu hverfa og íbúða,“ segir Pálmi.
Ekki bara flugvöllurinn
Flugvöllurinn sogar vissulega til sín ákveðna starfsemi og það setur mark sitt á þróunarverkefnið en Pálmi segir Kadeco ekki síður horfa til þeirra möguleika sem tengjast nærliggjandi hafnarmannvirkjum og samfélögum.
„Þetta snýst ekki bara um flugvöllinn. Það eru ótrúlega spennandi tækifæri í allar áttir á Reykjanesi. Hafnarsvæðið er eitt þessara tækifæra. Þar eru lóðir sem hægt væri að úthluta þannig að svæðið styðji við alla aðra starfsemi og styrki það sem fyrir er.
Til að draga þetta saman þá erum við að vinna þessi skipulagsmál á mjög spennandi hátt. Við erum annars vegar að teikna upp þau svæði sem eru fýsileg til uppbyggingar en á sama tíma að velja inn starfsemi sem nýtur góðs af því að vera nálægt flugvelli. Vegna þess að það er það sem þetta svæði kallar á umfram önnur svæði.“
Áform Kadeco helgast af því sem kalla mætti nýja nálgun í þróun og uppbyggingu stórra svæða á Íslandi að sögn Pálma.
„Þetta gerist ekkert á einni nóttu. Það þarf að vanda allan undirbúning og vinna eftir tímalínu sem teygir sig yfir marga áratugi.“
Fasaskipt verkefni
Þegar unnið er verkefni sem talar inn í fjarlæga framtíð, segir Pálmi einmitt svo mikilvægt að brjóta hlutina upp í fasa.
„Við erum að horfa á það sem er beint fyrir framan okkur núna. Tækifæri sem við vitum að eru þarna úti. Varðandi hótel og skrifstofur sem dæmi. En svo erum við líka að brjóta þetta niður í sviðsmyndir þar sem horft er annars vegar til ársins 2035 og svo það sem við köllum 2050 plús.“
Pálmi nefnir sem dæmi svæðið í kringum Reykjanesbrautina. Gert er ráð fyrir að byggð verði farin að taka á sig mynd árið 2035.
„Á Ásbrú erum við með frábær svæði sem henta fyrir íbúðabyggð og þéttingu. Svo erum við með þennan krans á milli byggðarinnar og flughlaðsins. Þar sjáum við fyrir okkur starfsemi sem tengist framtíð flugs. Varðandi hleðslustöðvar, eldsneyti og orkuskiptin. Þetta eru allt áform sem eru ekki svo fjarri okkur í tíma,“ segir Pálmi.
Allt taki þetta mið af þeim ramma sem Kadeco hafi fyrir framan sig og vinni markvisst eftir.
„Aðalatriðið er að öll svæði hafi sinn tilgang og það sé hugsun á bak við áformin. Við erum ekkert að stefna að því að verða Dúbaí norðursins eða eitthvað þess háttar. Við erum að búa til samfélög og kjarna sem henta því sem fyrir er. Við erum að gera þetta án þess að vera of upptekin af því hver á landið eða hvar tiltekin landamæri sveitarfélaga liggja. Við erum í 30 þúsund fetum og horfum alltaf á heildarmyndina.
Við erum að vinna skipulag fyrir anddyri landsins. Hvorki meira né minna. Þetta snýst ekki bara um Reykjanesið heldur landið í heild og ásýndina sem mætir fólki þegar það kemur til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll,“ segir Pálmi Freyr Randversson að lokum.