Scott Morri­son, for­sætis­ráð­herra Ástralíu, segir að for­svars­menn Face­book séu komnir aftur að samninga­borðum í deilu sinni við áströlsk yfir­völd, að því er fram kemur ávef Guar­dian.

Líkt og fram hefur komið lokuðu for­svars­menn sam­fé­lags­miðlarisans á allar síður þúsunda ástralskra fjöl­miðla, ríkis­stofnana sem og annarra sam­taka í landinu í vikunni. Hefur ekki verið hægt að deila fréttum ástralskra miðla síðan á fimmtu­dag.

Áströlsk yfir­völd hafa farið fram á að Face­book borgi frétta­miðlum þar í landi peninga­upp­hæðir fyrir deilingu á fréttum þeirra á miðlinum, en það hefur sam­fé­lags­miðla­risinn ekki viljað fallast á. Í frétt Guar­dian segir að for­stjóri Face­book í Asíu, Simon Milner, hafi beðist af­sökunar í gær vegna málsins.

Á­kvörðun Face­book hefur vakið mikið um­tal og mikla reiði í Ástralíu, ekki síst fyrir þær sakir að lokað var á mikil­vægar Face­book síður heil­brigðis­yfir­valda einungis nokkrum dögum fyrir bólu­setningar gegn CO­VID-19 í landinu sem hefjast á mánu­dag.

For­sætis­ráð­herrann sagðist í dag fagna af­sökunar­beiðni Milner. Hann sagði að á­kvörðun Face­book um að loka síðum þar sem ástralskur al­menningur nálgast lýð­heilsu­upp­lýsingar, ó­for­svaran­lega. „Ég er á­nægður með á­kvörðun Face­book sem á­kveðið hefur, að því er virðist, að vingast aftur við okkur og hefja sam­ræður að nýju,“ segir for­sætis­ráð­herrann.

Í upp­hafi sögðu for­svars­menn sam­fé­lags­miðlarisans að þeir hefðu neyðst til þess að loka um­ræddum að­göngum heil­brigðis­stofnanna, en hafa nú dregið í land með það. Aðrir netrisar, líkt og Goog­le, eru nú á loka­metrunum við samninga­gerð við áströlsk yfir­völd sem og ástralska frétta­miðla vegna um­ræddra greiðslna.