Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, segir að forsvarsmenn Facebook séu komnir aftur að samningaborðum í deilu sinni við áströlsk yfirvöld, að því er fram kemur ávef Guardian.
Líkt og fram hefur komið lokuðu forsvarsmenn samfélagsmiðlarisans á allar síður þúsunda ástralskra fjölmiðla, ríkisstofnana sem og annarra samtaka í landinu í vikunni. Hefur ekki verið hægt að deila fréttum ástralskra miðla síðan á fimmtudag.
Áströlsk yfirvöld hafa farið fram á að Facebook borgi fréttamiðlum þar í landi peningaupphæðir fyrir deilingu á fréttum þeirra á miðlinum, en það hefur samfélagsmiðlarisinn ekki viljað fallast á. Í frétt Guardian segir að forstjóri Facebook í Asíu, Simon Milner, hafi beðist afsökunar í gær vegna málsins.
Ákvörðun Facebook hefur vakið mikið umtal og mikla reiði í Ástralíu, ekki síst fyrir þær sakir að lokað var á mikilvægar Facebook síður heilbrigðisyfirvalda einungis nokkrum dögum fyrir bólusetningar gegn COVID-19 í landinu sem hefjast á mánudag.
Forsætisráðherrann sagðist í dag fagna afsökunarbeiðni Milner. Hann sagði að ákvörðun Facebook um að loka síðum þar sem ástralskur almenningur nálgast lýðheilsuupplýsingar, óforsvaranlega. „Ég er ánægður með ákvörðun Facebook sem ákveðið hefur, að því er virðist, að vingast aftur við okkur og hefja samræður að nýju,“ segir forsætisráðherrann.
Í upphafi sögðu forsvarsmenn samfélagsmiðlarisans að þeir hefðu neyðst til þess að loka umræddum aðgöngum heilbrigðisstofnanna, en hafa nú dregið í land með það. Aðrir netrisar, líkt og Google, eru nú á lokametrunum við samningagerð við áströlsk yfirvöld sem og ástralska fréttamiðla vegna umræddra greiðslna.