Ástralska þingið hefur nú sam­þykkt frum­varp sem snýr að því að tækni­risar á borð við Face­book og Goog­le þurfi að greiða frétta­miðlum fyrir efni sem deilt er á þeirra veitum en mikil um­ræða hefur skapast um málið síðast­liðna daga. Talið er að lög­gjöfin tákni það sem koma skal í öðrum löndum.

Frum­varpið sem um ræðir var sam­þykkt af neðri deild þingsins í síðustu viku en í kjöl­farið á­kvað Face­book að loka fyrir alla fjöl­miðla í Ástralíu í mót­mæla­skyni. Í til­kynningu sögðust þau ekki hafa átt neinna annarra kosta völ og sögðu stjórn­völd ekki skilja hvernig netið virkar í raun og veru.

Fyrr í vikunni til­kynntu áströlsk yfir­völd að Face­book hafi dregið bannið til baka gegn því skil­yrði að breytingar yrðu gerðar á frum­varpinu. Þannig mun Face­book geta stutt við þá út­gef­endur sem þau vilja og því verða þau ekki neydd í samninga­við­ræður.

Líkt og áður segir mót­mæltu Face­book lögunum harð­lega en á sama tíma hafði Goog­le þegar sam­þykkt að greiða fyrir efni frá út­gef­endum. Bæði voru þau þó mót­fallin lögunum og héldu því fram að miðlar þeirra hjálpi not­endum að finna efni út­gef­enda.