Aston Martin hyggst safna tæplega 260 milljónum punda, jafnvirði 45 milljarða króna, með því að gefa út nýtt hlutafé og taka dýrt lán í því skyni að fjármagna viðsnúning í rekstri.

Stefnt er á að selja um fimmtung í fyrirtækinu fyrir 190 milljónir pund og fá 68 milljóna punda lánalínu sem ber tólf prósent vexti, segir í frétt Financial Times.

Helmingur endurgreiðslu á láninu verður í formi hlutabréfa og helmingur í reiðufé. Alla jafna eru lánaskilmálar með þessum hætti þegar lánveitandi telur ólíklegt að lántaki geti endurgreitt lánið að fullu.

Nýir eigendur komu að rekstrinum

Kanadíski milljarðamæringurinn Lawrence Stroll leiddi hóp fjárfesta sem kom Aston Martin til bjargar í fyrra. Þeir lögðu 540 milljónir punda í félagið. Hlutabréf Aston Martin hafa fallið um meira en 90 prósent frá því það var skráð í kauphöll seint á árinu 2918.

Samstæðan tapaði 120 milljónum punda á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Stroll hefur sagt að fyrirtækið muni einungis selja bíla sem viðskiptavinir hafi greitt fyrir í stað þess að fylla sýningarsali af óseldum bílum.

Eins og hjá öðrum bílaframleiðendum hefur kórónaveiran valdið fyrirtækinu búsifjum. Aston Martin hefur orðið að loka tveimur verksmiðjum og fjölmörgum bílasölum um heim allan. Um 90 prósent af sýningarsölum þess hafa verið opnaðir að nýju.