Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn fyrirtækisins. Stjórn Marels leggur til að Svava Grönfeldt taki sæti í stjórninni en að öðru leyti verði hún óbreytt.

Ásthildur Margrét hefur setið í stjórn Marel frá árinu 2010 og verið stjórnarformaður frá árinu 2013. Aðalfundur fer fram hinn 17. Mars.

Ásthildur Margrét Otharsdóttir, fráfarandi stjórnarformaður Marel.
Mynd/Marel

Svafa situr í stjórn Össurar, Origo og Icelandair hvar hún er varaformaður stjórnar. Hún situr jafnframt í stjórn MIT DesignX sem er viðskiptahraðall hjá MIT háskólanum í Boston og er meðstofnandi sprotasjóðsins MET sem er með aðsetur í Cambridge. Svava var áður framkvæmdastjóri hjá Alvogen, aðstoðarforstjóri Actavis Group og rektor Haskóla Reykjavíkur.

Aðrir stjórnarmenn í Marel eru: Ann Elisabeth Savage, Arnar Þór Másson, Ástvaldur Jóhannsson, Lillie Li Valeur, Ólafur Steinn Guðmundsson og Ton van der Laan.

Stjórnin leggur til að Marel greiði 41 milljón evra í arð sem er um 40 prósent af hagnaði síðasta árs.