„Efnahagslegu áhrifin fara alfarið eftir því hversu lengi þessar hertu takmarkanir vara,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við Fréttablaðið.

Svandís Svavarsdóttir tilkynnti á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag að breytingar á sóttvarnareglum taki gildi um hádegi á morgun. Helstu breytingarnar fela í sér að fjöldasamkomur séu takmarkaðar við 100 manns og að tveggja metra reglan verði tekin upp á ný og verði í þetta sinn ekki valkvæð heldur skylda.

„Við erum að sjá fram á minni innlenda eftirspurn á næstu vikum og líklega einhver áhrif á ferðaþjónustuna þótt erfiðara sé að spá fyrir um þau,“ segir Jón Bjarki. „Stóra spurningin er þessi: erum við að tala um örfáar vikur eða ná þessar takmarkanir langt inn í haustið?“

Jón Bjarki nefnir að kortavelta hafi dregist snarplega saman í vor á meðan hörðustu takmörkununum stóð en komið til baka af krafti um leið og takmörkunum var aflétt. „Þessi áhrif eru enn að koma fram í ferðagleði Íslendinga innanlands.“

Jón Bjarki Bentsson.jpg

Þótt takmarkanirnar sem nú voru kynntar séu ekki jafn harðar og þær sem voru settar fyrr á árinu er ólíklegra nú en þá að innlend eftirspurn taki kipp þegar þeim verður aflétt. Jón Bjarki bendir á að næstu og þarnæstu mánaðamót muni margir uppsagnarfrestir renna út. Fyrirtæki sem gátu haldið sér á floti yfir sumarmánuðina en sjá ekki fram á að þrauka út veturinn neyðist til að leggja niður starfsemi.

„Ástandið getur versnað hratt eftir því sem við líður á haustið vegna þess að það er ólíklegra að eftirspurnin komi aftur til baka af krafti eins og hún gerði í sumar. Um leið og við erum komin inn í haustið með mjög strangar takmarkanir munu þær hafa áhrif til hins verra svo um munar.“

Hertar samkomutakmarkanir verða í gildi næstu tvær vikur miðað við þá tillögu sem heilbrigðisráðherra lagði fram og ríkisstjórnin samþykkti í morgun. Ráðherrann segir þó að áfram verði staðan metin dag frá degi og útilokar ekki að landsmenn geti þurft að venja sig á herðingar og skerðingar á takmörkunum til skiptis á næstu mánuðum.