Vaxtaálag fyrirtækjaskuldabréfa hefur farið lækkandi eftir því sem fjárfestar leita betri ávöxtunar í áhættumeiri eignum. „Við höfum verið að sjá álag á fyrirtækjaskuldabréfum lækka í haust og þannig er sú hækkun sem átti sér stað í kjölfar COVID-19 að miklu leyti gengin tilbaka,“ segir Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá AKTA sjóðum, og bendir á að svipuð þróun hafi verið að eiga sér stað á erlendum skuldabréfamörkuðum síðustu mánuði.

„Betri efnahagshorfur með tilkomu bóluefnis hafa hjálpað ásamt lágvaxtaumhverfinu sem hefur ýtt undir áhættusækni fjárfesta.“

Í bókum lífeyrissjóða hafa markaðsskuldabréf atvinnufyrirtækja aukist úr 302 milljörðum króna í 332 milljarða, nær 10 prósent, milli mars og október. Ætla má að aukningin haldi áfram í nóvember í ljósi þess að fasteignafélögin Reginn og Reitir hafa gefið út töluvert magn skuldabréfa á tímabilinu.

Markaðsskuldabréf.jpg

Hrafn Steinarsson, sérfræðingur í skuldabréfamiðlun hjá Arion banka, segir að góður gangur hafi verið í útgáfu fyrirtækjaskuldabréfa hjá bankanum. Álag fyrirtækjabréfa ofan á áhættulausa vexti hafi farið lækkandi sem skýrist meðal annars af aukinni ásókn í bréfin.

„Við búum við sögulega lágt vaxtastig og við slíkar aðstæður er viðbúið að fjármagn leiti úr öruggari fjárfestingakostum í áhættusamari í leit að betri ávöxtun, á sama tíma og fyrirtæki sjái sér hag í endurfjármögnun skulda,“ útskýrir Hrafn.

„Horft fram á við held ég að fleiri fyrirtæki geti séð tækifæri í útgáfu á skuldabréfamarkaði.“

Lægra álag fyrirtækjabréfa skýrist einnig af snarpri hækkun á ávöxtunarkröfu ríkisbréfa síðustu mánuði að sögn Hrafns. Krafa á lengri verðtryggð ríkisbréf hefur hækkað um 70 – 80 punkta síðustu þrjá mánuði en þar sem krafa fyrirtækjabréfa hefur ekki fylgt ríkisbréfunum að fullu hefur vaxtaálagið farið minnkandi.

Þá bendir hann á að lífeyrissjóðir hafi fengið uppgreiðslur á sjóðfélagalán síðustu mánuði sem bætist ofan á hreint innflæði í sjóðina, sem kann að hafa aukið eftirspurn eftir fyrirtækjabréfum.

„Horft fram á við held ég að fleiri fyrirtæki geti séð tækifæri í útgáfu á skuldabréfamarkaði, allt frá útgáfu víxla eða stuttra óverðtryggðra bréfa yfir í lengri verðtryggð bréf.“

Minnka vægi ríkisbréfa

Markaðurinn hefur að undanförnu fjallað um að lífeyrissjóðir hafi sýnt lítinn áhuga á því að fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagðist hafa áhyggjur af því að lífeyrissjóðirnir væru að mestu fjarverandi þegar kemur að því að fjármagna ríkissjóð með kaupum á ríkisskuldabréfum á markaði.

Á sjóðsfélagafundi Gildis lífeyrissjóðs í síðustu viku var farið yfir stöðu sjóðsins og stefnu til framtíðar. Þar kom fram að aukin áhersla yrði á veðskuldabréf, og skuldabréf fyrirtækja og banka. Á móti yrði dregið úr vægi skuldabréfa með ábyrgð ríkisins.

Heildareignir samtryggingardeildar Gildis námu ríflega 727 milljörðum króna í byrjun nóvember. Þar af námu skuldabréf fyrirtækja 4,9 prósentum af heildareignum, sem samsvarar 36 milljörðum, en samkvæmt stefnu Gildis fyrir árið 2020 vill sjóðurinn hækka hlutfallið upp í 8 prósent. Miðað við stöðuna í byrjun nóvember má áætla að Gildi vilja bæta fyrirtækjabréfum við eignasafn sitt fyrir um 22 milljarða króna.

Almenni lífeyrissjóðurinn birti einnig uppfærða fjárfestingarstefnu síðustu mánamamót. Samkvæmt henni verður lítil breyting á vægi fyrirtækjabréfa en Almenni ætlar að stórauka vægi veðskuldabréfa í samtryggingasjóði úr tæplega 16 prósentum af heildareignum og upp í 25 prósent. Á móti verður hlutfall ríkistryggðra skuldabréfa lækkað úr tæplega 22 prósentum niður í 10 prósent.

Samkvæmt fjárfestingastefnu sinni hyggst Almenni lífeyrissjóðurinn minnka vægi ríkisbréfa í samtryggingasjóði úr 22 prósentum í 10 prósent.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafa einnig sett markmið um að draga úr vægi ríkisskuldabréfa. Hjá báðum sjóðum er hlutfallið rúmlega 20 prósent en stefnt er að því að ná hlutfallinu niður í 17 prósent. Eignarhald lífeyrissjóða á ríkisskuldabréfum sem hlutfall af heildarmagni, hefur lækkað úr 40 prósentum niður í 37 prósent frá áramótum.

Fasteignafélögin Eik, Reginn og Reitir gáfu út skuldabréf fyrir um 30 milljarða króna á síðustu vikum. Mikil eftirspurn eftir skuldabréfunum, einkum frá lífeyrissjóðum, varð til þess að vaxtaálag bréfanna ofan á áhættulausa vexti, sem hafði risið úr um 1,5 prósentum upp í um 2,5 prósent á síðustu 3 árum, fór aftur niður í kringum 1,6 prósent. Til samanburðar gefur Lánasjóður sveitarfélaga út skuldabréf með 1,1 prósents vaxtaálagi en sjóðurinn getur tekið veð í tekjum sveitarfélaga og er gjaldgengur í veðlánaviðskipti hjá Seðlabankanum. Ávöxtunarkrafan á skuldabréf fasteignafélaganna hefur lítið haggast frá því í sumar en hækkandi ávöxtunarkrafa á ríkisbréf veldur því að vaxtaálagið minnkar.

Sjóður Kviku kominn á skrið

Kvika eignastýring kom á fót sjóðnum ACF III slhf. í sumar, en um er að ræða samlagshlutafélag sem mun koma að fjármögnun fyrirtækja. Heildaráskriftaloforð sjóðsins, sem er í eigu flestra af stærstu lífeyrissjóðum landsins, námu 19,5 milljörðum króna og er fjárfestingatímabil hans þrjú ár. Sjóðurinn mun fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, einkum með veði í fasteignum og fastafjármunum. Ekki hefur verið stofnaður jafn stór fjárfestingasjóður hér á landi síðan Framtakssjóður Íslands var settur á fót í árslok 2009.

Þorkell Magnússon, forstöðumaður sjóðsstýringar, segir að sjóðurinn sé nú þegar byrjaður að fjárfesta og mörg verkefni séu í vinnslu og skoðun. Um 15-20 prósentum af sjóðnum hefur verið ráðstafað í verkefni.

„Horfur eru góðar og mörg áhugaverð fyrirtæki að skoða sín fjármögnunarmál og viljug til að skoða aðra valmöguleika en hefðbundna bankafjármögnun,“ segir Þorkell. „Við finnum fyrir því að lágir innlánsvextir auka eftirspurn eftir skuldabréfum fyrirtækja til lengri tíma.“