Ásmundur Gíslason, fyrrverandi sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka, og Bjarnólfur Lárusson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka, hafa hafið samstarf á sviði ráðgjafar til fyrirtækja og fjárfesta undir merkjum Eldjárns Capital.

Frá þessu greinir Ásmundur á Linkedin-síðu sinni.

„Það gleður mig að segja frá því að ég og Bjarnólfur Lárusson höfum formlega hafið samstarf á sviði ráðgjafar til fyrirtækja og fjárfesta. Við höfum sameinast undir merkjum Eldjárns Capital og hlökkum til þess að vinna með núverandi sem og nýjum viðskiptavinum,“ skrifar Ásmundur.

Eldjárn Capital, sem er til húsa í Sjávarklasanum að Grandagarði, er ráðgjafafyrirtæki fyrir fyrirtæki, fjárfesta og fjármögnunaraðila en á vef fyrirtækisins er tekið fram að innan þess búi áratugareynsla og þekking við gerð rekstraráætlana, fjármögnun fyrirtækja og samningagerð af öllu tagi.

Ásmundur hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2006, fyrir Glitni og síðar Arion banka, auk þess að sitja í stjórnum fyrirtækja. Bjarnólfur hefur um sextán ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði en hann hefur starfað fyrir Landsbankann og Íslandsbanka. Jafnframt er hann einn af eigendum bakarísins Passion Reykjavík í Álfheimum.