Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að áskriftastaðan líti mjög vel út miðað við þær áætlanir sem fyrirtækið gerði þegar það lagði fram hátt tilboð í sýningarréttinn á enska boltanum á síðasta ári. Hann býst við að áhorfið verði talsvert meira en áður hefur verið.

„Ekkert í áætlunum okkar hefur breyst en stóri prófsteinninn kemur á næstu vikum. Þetta er ekki í höfn en lítur mjög vel út og lofar góðu,“ segir Orri í samtali við Fréttablaðið.

Enski boltinn hefst í kvöld þegar Liverpool tekur á móti Norwich. Síminn hefur gengið frá dreifisamningum þannig að stöðin Síminn Sport verði aðgengileg á öllum dreifikerfum Símans, Sýnar, Hringdu og Nova.

„Dreifingin er eins mikil og hún getur orðið, öll stærstu dreifikerfi sem í notkun eru á landinu eru hluti af okkar áætlunum og við gerum ráð fyrir því að notkunin verði talsvert meiri en áður,“ segir Orri og nefnir tvær ástæður.

„Annars stilltum við verðinu á stakri áskrift í hóf þannig að fleiri munu nota þann valkost í stað þess að nota ólögleg streymi. Hins vegar er enski boltinn innifalinn í Sjónvarpi Símans Premium sem er nú þegar með 35-40 þúsund áskrifendur,“ segir Orri.

Verðið á stakri áskrift er 4.500 krónur á mánuði en áskriftargjald að Sjónvarpi Símans Premium nemur 6 þúsund krónum. Það hækkaði um þúsund krónur þegar enski boltinn varð innifalinn. 239 leikir úr ensku úrvalsdeildinni verða sýndir í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans á tímabilinu og þar af verða 79 í 4K eða Ultra háskerpu.