Áskriftartekjur Taktikal tífölduðust á einu ári í kjölfar COVID-19 og fjöldi notenda meira en hundraðfaldaðist á sama tíma. Fyrirtækið vinnur að því að sækja á alþjóðlegan markað.

Fyrir rétt um ári síðan voru flestir enn að sendast með pappíra og safna undirskriftum. Í kjölfar Covid neyddust fyrirtæki til að finna aðrar leiðir. Taktikal er nýsköpunarfyrirtæki sem síðan 2017 hefur þróað hugbúnað sem gerir fyrirtækjum kleift að loka samningum með rafrænum hætti og hraðar en áður hefur þekkst. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Fyrirtækið hefur sprungið út á síðastliðnu ári. Fyrir aðeins rúmlega ári síðan samanstóðu tekjur Taktikal fyrst og fremst af ráðgjafar- og innleiðingartekjum. Það hlutfall hefur nú alveg snúist við og eru áskriftartekjur nú um 80% af tekjum,“ segir Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Taktikal.

Lítill hluti samninga í stafrænu ferli

Heimur viðskipta gengur út á skriflega samninga. Án þeirra er ekki hægt að eiga í stórum viðskiptum. Það er algengur misskilningur að heimurinn sé langt kominn í stafrænni væðingu á þessu sviði. „Staðreyndin er sú að í mesta lagi 10-15 prósent af samningum í heiminum eru í einhverskonar stafrænu ferli. Hillur, skápar og skúffur hjá fyrirtækjum og stofnunum eru enn full af undirrituðum pappírum,“ segir í tilkynningunni.

Taktikal var stofnað snemma árs 2017 af nokkrum sérfræðingum úr fjármála- og hugbúnaðargeiranum. Fyrstu tvö árin fóru í að vinna með viðskiptavinum og þróa lausnir sem markaðurinn þurfti. Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins eru nú að nota lausnir Taktikal, en fjöldi nýrra viðskiptavina bætist við í hverri viku.

Á næstu misserum kemur út alþjóðlegt undirskriftarferli frá Taktikal sem gerir það að verkum að fyrirtæki geta undirritað skjöl óháð landamærum.

Erlend sókn

Á næstu misserum kemur út alþjóðlegt undirskriftarferli frá Taktikal sem gerir það að verkum að fyrirtæki geta undirritað skjöl óháð landamærum.

„Við höfum undanfarið ár lagt mikla vinnu í að gera lausnir okkar tilbúnar fyrir alþjóðamarkað og setja þær upp þannig að hægt sé að selja þær nánast hvar sem er í heiminum. Að keppa á alþjóðamarkaði er gjörólíkt því að vinna á litlum heimamarkaði. Vinnan felst ekki bara í aðlögun vörunnar þannig að hún virki í samspili við stærstu markaðssvæðin, heldur miklu fremur uppbyggingu á nýjum dreifileiðum og þekkingu í sölu- og markaðssetningu vörunnar.

Það getur verið gríðarlega flókið ferli að undirrita skjöl yfir landamæri vegna mismunandi reglna á milli landa,“ segir Valur.