Það verður áskorun að fá fólk til starfa í ferðaþjónustunni nú þegar greinin er komin á fullt skrið eftir rúmlega tvö ár af heimsfaraldri. Þetta sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðþjónustunnar, í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Það kann að vera að það verði töluvert erfitt að fá fólk til starfa í greininni,“ segir Jóhannes en bætir við að staðan nú sé þó betri en í fyrra.

„Við erum í betri stöðu varðandi sérþekkinguna það er að segja sérlærða leiðsögumenn, kokka og þjóna en staðan er slæm einkum meðal þeirra starfa sem ekki krefjast sérþekkingar. Við munum líklega koma til með að þurfa að flytja inn meira vinnuafl en við höfum áður gert. Fái menn fólk verður líka áskorun að finna fyrir það húsnæði á mörgum stöðum á landinu.“