Það getur reynst áskorun að tryggja faglega innlenda mönnun fyrir verkefni tengd stafrænni uppbyggingu og öðrum tæknilegum umbreytingum fyrirtækja og stofnana vegna skorts á sérþjálfuðu og reyndu starfsfólki. Þetta segir Davíð Stefán Guðmundsson, meðeigandi hjá Deloitte.

Hann segir að einkum vegna smæðar hafi það reynst íslensku atvinnulífi áskorun að byggja upp sérhæfða atvinnugreinaþekkingu í stafrænni þróun og stærri umbreytingaverkefnum. „Hvar á fólk að fá reynsluna á jafn litlum markaði og Ísland er? Hvernig er hægt að byggja upp nauðsynlega sérþekkingu þegar umfangsmikil verkefni eru fátíð? Ég tel að blönduð, innlend og erlend, teymi séu hinn gullni meðalvegur sem oft þarf í þeim aðstæðum,“ segir Davíð. Deloitte hafi því sótt í samstarf á vegum Deloitte á heimsvísu.

Davíð segir að á ráðgjafarsviði Deloitte á Íslandi starfi um 50 sérfræðingar í upplýsingatækni en sem hluti af öflugu og alþjóðlegu neti Deloitte á heimsvísu geta þau nýtt sér þá ríflega 345.000 sérfræðinga sem starfa hjá Deloitte um heim allan, í fjölbreytt verkefni hér á landi.

„Nýlega höfum við til að mynda starfað með 40 erlendum sérfræðingum á sviði fjarskipta, landmæraeftirlits og tryggingastarfsemi svo eitthvað sé nefnt. Þar vinnum við í blönduðum innlendum/erlendum teymum í krefjandi verkefnum. Eftirspurnin eftir þessari þekkingu á Íslandi er langt umfram framboðið af íslenskum sérfræðingum,“ segir hann.

Davíð segir að það sé mikilvægt að auka þekkingu og reynslu íslenskra sérfræðinga í upplýsingatækni enda mun hugvit þeirra og færni verða undirstaðan í allri framþróun og hagvexti næstu ára. „Þegar stærstu fyrirtæki landsins standa frammi fyrir verkefnum sem er áskorun að leysa með tilliti til mönnunar og þekkingar ættu þau að leitast við að setja saman blönduð teymi með innlendum og erlendum sérfræðingum. Það er þó mikilvægt að sú þekking og reynsla sem fengin er til landsins komist áleiðis til innlendra sérfræðinga og verði eftir hér á landi enda hefur uppbygging á innlendri sérfræðiþekkingu aldrei verið mikilvægari en nú,“ segir Davíð Stefán.