Fjártæknifyrirtækið og áskorendabankinn indó hefur gengið frá fjármögnun upp á rúmlega 70 milljónir króna samkvæmt heimildum Markaðarins. Fjármögnunin skiptist þannig að rúmlega 30 milljóna króna var aflað með hlutafjáraukningu og rúmlega 40 milljóna með útgáfu breytanlegs skuldabréfs til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Áður hafði indó tekið inn rétt um 100 milljónir króna.

Stofnendur indó, Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, sögðu haustið 2019 að félagið áformaði að bjóða upp á veltureikninga sem hægt væri að tengja við debetkort. Ólíkt hefðbundinni bankastarfsemi yrðu innistæður viðskiptavina indó ekki lánaðar út nema til ríkisins. Þannig yrðu öll innlán hjá indó lögð inn á reikning hjá Seðlabankanum eða fjárfest í ríkisskuldabréfum.

Báðir stofnendur indó hafa starfað á fjármálamarkaði um langt skeið. Haukur starfaði í tíu ár hjá Íslandsbanka þar sem hann var meðal annars forstöðumaður framtaksfjárfestinga og forstöðumaður greiningar og stefnumótunar á viðskiptabankasviði. Tryggvi Björn var framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka á árunum 2011 til 2017 en fyrir það starfaði hann hjá Barclays Capital í London við að byggja upp skuldabréfafjárfestingasvið breska bankans.

Nýlega gekk Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar, til liðs við indó sem ráðgjafi á sviði stefnumótunar viðskiptavina.