Bílaumboðið Askja hagnaðist um 368 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 51 milljón á milli ára. 

Tekjur fyrirtækisins jukust verulega, eða um 15,5 prósent á milli ára. Þær námu 15,8 milljörðum árið 2017 samanborið við 13,6 milljarða árið 2016. Kostnaðarverð seldra var jókst hins vegar hlutfallslega jafn mikið og launatengd gjöld jukust um 17 prósent.

Askja sérhæfir sig í sölu og þjónustu á bifreiðum frá Mercedes-Benz og Kia. Hjá félaginu störfuðu 125 starfsmenn að meðaltali á árinu samanborið við 110 starfsmenn árið 2016.

Eigandi Öskju er eignarhaldsfélagið Top. Hjörleifur Jakobsson er stjórnarformaður Öskju og Top en aðrir stjórnarmenn eru Frosti Bergsson, sem jafnframt er varaformaður stjórnar, Egill Ágústsson, Hjördís Ásberg og Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir. Framkvæmdastjóri er Jón Trausti Ólafsson.