Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segist vona að SA og Alþýðusamband Íslands þokist nær samkomulagi á næstu dögum en SA fundaði með formönnum stjórnarflokkanna í ráðherrabústaðinum fyrr í dag. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.

Á fundinum í morgun var farið yfir stöðu mála en SA og ASÍ takast nú á um hvort forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar. Líkt og Fréttablaðið greindi frá fyrir helgi hefur Halldór kallað eftir sveigjanleika af hálfu verkalýðshreyfingarinnar vegna þeirrar gjörbreyttu myndar sem blasir við íslensku samfélagi vegna kórónakreppunnar.

Mikilvægt að deiluaðilar nái saman

Í Silfrinu í morgun sagðist Halldór vera vonsvikinn að viðræður við verkalýðshreyfinguna hafi ekki borið árangur en þremur tillögum SA hafði verið hafnað.

Fyrsta tillaga SA var að fresta skyldi ákvarðanatöku um samninginn um tvo mánuði, önnur að samningurinn yrði enn í gildi og bíða þyrfti og sjá hver efnahagsáhrif COVID-19 verða, og sú síðasta að lækka skyldi mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði tímabundið.

Í samtali við RÚV sagði Halldór að það væri mikilvægt að deiluaðilar næðu saman. Aðildafyrirtæki SA greiða atkvæði á morgun um hvort segja eigi samningnum upp. Hann sagðist bjartsýnn um að komist verði að niðurstöðu á næstu dögum en að framhaldið væri nú í höndum stjórnenda fyrirtækja innan SA.

Alvarlegt ef atvinnurekendur ætla að stofna til ófriðar

Forsetateymi ASÍ fundaði sömuleiðis ásamt formönnum stjórnarflokkanna í dag en Drífa Snædal, forseti ASÍ sagði í samtali við RÚV að engin ákvörðun hafi verið tekin á fundinum. Hún sagði það vera alvarlegt ef atvinnurekendur ætla að stofna til ófriðar og óvissu á atvinnumarkaði.

„Þetta er algjörlega á ábyrgð atvinnurekenda núna hvort að þeir ætla að boða til ófriðar á íslenskum vinnumarkaði. Það er ekki oft sem þessi staða er uppi, en ábyrgð þeirra er mikil og ég á nú eftir að sjá það að þeir velji það að hleypa hér öllu í háaloft,“ sagði Drífa í samtali við RÚV eftir fundinn.

Drífa sagði að næstu skref innan ASÍ væru að fara yfir hvort það væri löglegt að brjóta á forsendum sem SA hafa nefnt en verkalýðshreyfingin vill að samningarnir haldi þar sem þeir séu lykill að fyrirsjáanleika á vinnumarkaði.

Sakar SA um óheiðarleika

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sat einnig fundinn en hún sagðist líta sem svo á að ef SA koma til með að segja upp samningnum sé það „harðsvíruð árás og aðför að réttindum lægst launaðasta fólksins á vinnumarkaði.“

„Það er ótrúlegt að verða vitni að þeim óheiðarleika og blekkingum sem SA hafa farið fram með það sem þau láta eins og forsendur kjarasamninganna hafi brostið þrátt fyrir að þau viti það manna best að það er einfaldlega ósatt,“ sagði Sólveig Anna í samtali við RÚV.