Alþýðusamband Íslands fór af stað með auglýsingaherferð í tilefni nýafstaðinnar kosningabaráttu. Kostnaðurinn við auglýsingaherferðina nam 40 milljónum króna. Þetta kemur fram í svari Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ASÍ, við fyrirspurn Markaðarins.

Halla segir ekkert óeðlilegt við það að Alþýðusambandið verji fjármunum með þessum hætti. „Maður heyrir þau sjónarmið að svona samtök ættu ekki að vera að skipta sér af kosningabaráttu en ég er persónulega ósammála því. Við í ASÍ vinnum að almannahag og mér þykir bara eðlilegt að við köllum eftir upplýsingum frá stjórnmálaflokkunum. Með því reynum við að draga fram þá þætti sem skipta launafólk máli,“ segir Halla í samtali við Markaðinn.

Hún bætir við að ASÍ hafi ávallt reynt að beita sér í tilefni kosninga. „Við höfum alltaf gert eitthvað í tilefni kosninga. Við höfum verið með formannapallborð og gefið frá okkur efni og yfirlýsingar. Í tilefni þessara kosninga ákváðum við að bæta aðeins í og réðum til okkar starfsmann til að halda utan um þessa auglýsingaherferð. Með því að ráðast í þessa herferð vildum við draga fram þætti sem skipta launafólk máli eins og húsnæðismál og atvinnumál.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins fóru af stað með auglýsingaherferðina Höldum áfram og einblíndu þau á auglýsingar á samfélagsmiðlum. Heildarkostnaður samtakanna við þá auglýsingaherferð í aðdraganda kosninga nam um 1 milljón króna, eða 963.719 krónum. Kostnaðurinn sundurliðaðist þannig að auglýsingar á samfélagsmiðlum voru keyptar fyrir 488.647 krónur en blaðaauglýsingar fyrir 475.072 krónur.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) fór einnig af stað með auglýsingaherferð í aðdraganda kosninganna. Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, vildi ekki gefa upp kostnað við auglýsingaherferðina þegar leitað var eftir því.