„Þetta er meiri hækkun en við gerðum ráð fyrir og við vitum að þetta kemur mjög illa við heimilin sem eru þegar í­þyngd af hækkandi vöru­verði og sam­göngu­kostnaði,“ segir Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, um vaxtahækkun Seðlabankans sem tilkynnt var um í morgun. Hún segir að á sama tíma og er ráðist í þessa hækkun sé komin hressi­leg við­spyrna í við­skipta­lífið.

Drífa gerir ráð fyrir því að þessi hækkun leggist helst á al­menning og kallar eftir því að yfir­völd fari í ein­hverjar aðrir til að minnka höggið á al­menning.

„Við erum búin að kalla eftir að­gerðum í marga mánuði vitandi að það sé dýr­tíð og vaxta­hækkunar­ferli en að­gerðir stjórn­valda láta á sér standa til að minnka höggið.“

Hvað heldurðu að valdi því?

„Ég veit það ekki. Það er lík­lega á­huga­leysi um lífs­kjör al­mennings.“

Á sama tíma og Seðla­bankinn fimm­faldar stýri­vexti hér á landi hefur Seðla­banki Evrópu haldið stýri­vöxtum sínum ó­breyttum í 0 prósent, þrátt fyrir að undan­farið hafi verð­bólga mæst meiri inna ESB en hér á landi.

„Evrópu­sam­bandið hefur verið með á­kall til sinna aðildar­ríkja um að stjórn­völd beiti sér núna til að minnka höggið á al­menning og þá erum við sér­stak­lega að tala um orku­kostnað og hitun hús­næðis en verðið á því hefur rokið upp úr öllu valdi,“ segir Drífa en það gerðist sér­stak­lega í kjöl­far stríðsins í Úkraínu.

Hún segir að það sé ekki það eina og kallar eftir því að stjórn­völd á Ís­landi bregðist við. Mið­stjórn sam­takanna hittist seinni partinn í dag til að ræða vaxta­hækkunina og gerir Drífa ráð fyrir því að stjórnin bregðist við þessu í kjöl­far fundarins.