„Við erum bara rétt að byrja,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri um aðgerðir Seðlabankans á fundi í húsakynnum bankans í morgun.

„Það hefur átt sér stað gríðarleg þróun erlendis þar sem seðlabankar hafa verið að beita sér og við höfum eiginlega ekki gert neitt af því sem þeir hafa verið að gera,“ bætti Ásgeir við og áréttaði að í kjölfar sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hefði sameinuð stofnun yfir að búa „ótal tækjum“.

Fram kom í tilkynningu Seðlabankans í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið að lækka stýrivexti um hálft prósentustig, þannig að þeir færu niður í 1,75 prósent, auk þess sem fjármálastöðugleikanefnd bankans hefði tekið ákvörðun um að aflétta tveggja prósenta kröfu um sveiflujöfnunarauka á bankana. Verður aukinn þar með núll prósent.

Aðgerðunum er ætlað að milda þau víðtæku efnahagsáhrif sem útbreiðsla kórónaveirunnar hefur á hagkerfi landsins.

Á fundinum í morgun benti Ásgeir á að Seðlabankinn hefði tæki til þess að bregðast við efnahagsáfallinu. Hægt væri að gera „ótal hluti“ sem meta þyrfti í ljósi stöðunnar hverju sinni.

Hann ítrekaði að um tímabundið áfall væri að ræða. Mikilvægt væri að fólk hugsaði lengra en nokkra mánuði fram í tímann.

„Þetta er ekki eins og þegar við ofveiddum síldina og það tók þrjátíu ár fyrir hana að koma aftur. Ísland verður áfram ferðaþjónustuland. Við erum bara að tala um tímabundið ástand og efnahagsaðgerðir verða að einhverju leyti að mótast af því,“ sagði seðlabankastjóri.