Ás­geir Jóns­son, seðla­banka­stjóri, sagði meðal annars á fundi sínum með efna­hags-og við­skipta­nefnd Al­þingis í morgun, að hann hefði á­hyggjur af því að hag­vaxtar­spár séu of bjart­sýnar sé tekið mið af er­lendum á­hrifum. Ás­geir mætti á­samt Gylfa Zoega, nefndar­manni, þar sem skýrsla peninga­stefnu­nefndar var rædd og horfur í efna­hags­málum.

„Ís­lenska hag­kerfið er á leið í niður­sveiflu eftir átta ára sam­felldan vöxt,“ sagði Ás­geir meðal annars og sagði að búist væri við 0,2 prósenta sam­drætti. Ís­lendingar væru að sleppa mjög auð­veld­lega frá mjög miklum hag­vexti.

Spurðir að því af Þor­steini Víg­lunds­syni, þing­manni Við­reisnar, hvort þeir teldu hag­vaxtar­spár raun­sæjar, sagðist Ás­geir óttast horfur í efna­hags­kerfum á al­þjóða­vísu, sem og stöðuna í ferða­þjónustunni og þá væri gengi krónunnar sterkt. „Ég óttast að ó­vissan sé niður á við, að þetta sé of gott til að vera satt.“

Einka­neysla hefði minnkað úr sex­tíu prósentum í fimm­tíu prósent á síðustu árum og sparnaður aukist. „Einka­neyslan áður var svo skuld­sett. Af því að við erum ekki að sjá einka­neysluna skuld­setta og erum ekki að sjá lækkun kaup­máttar, þannig séð, út af því hvað verð­bólga hefur verið stöðug, erum við ekki að sjá inn­lenda eftir­spurn hrynja eins og áður,“ sagði Ás­geir.

„Ég óttast það að mögu­lega sé þetta of mikil bjart­sýni miðað við það sem er að gerast úti,“ sagði seðla­banka­stjórinn jafn­framt og tók fram að hægt væri að lækka vexti meira haldi verð­bólga á­fram að hækka og einnig ef hag­vaxtar­horfur versna.