Ásgeir Kolbeinsson mun opna veitingastaðinn Pünk í lok mánaðarins á Hverfisgötu 20 sem er við hlið bílastæðahúss í götunni. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu.

Hann segir í fréttinni að staðurinn verði óformlegur, nokkuð villtur og fjölbreyttur. Róttækar breytingar verði gerðar á húsnæðinu en Leifur Welding hanni staðinn. Leifur hannaði meðal annars Apótekið, Fjallkonuna, Grillmarkaðinn, Hótel Geysi í Haukadal, Sushi Social og Sæta svínið.

Bjartur Elí Friðþjófsson er yfirkokkur Pünk en hann var áður einn af yfirkokkum Grillmarkaðarins. Bjartur Elí vann áður í Danmörku á Michelin-staðnum Kadeau, sem státar af tveimur stjörnum.

„Við höfum verið að þróa þennan matseðil saman síðustu mánuði, út frá breyttum áherslum fólks, en í dag vill það ekkert endilega vera að stútfylla sig, heldur snýst þetta meira um að fá sér einn eða tvo rétti, stundum fleiri saman, og svo góða rauðvínsflösku og kokteila og skemmtilega stemningu,“ segir Ásgeir við Viðskiptablaðið.