Ásgeir Baldurs hefur verið ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá TM. Ásgeir hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu bæði sem stjórnandi, ráðgjafi, fjárfestingastjóri og stjórnarmaður. Hann hefur meðal annars verið forstjóri VÍS, forstöðumaður í fyrirtækjaráðgjöf, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga og fjárfestingastjóri hjá Kviku og dótturfélögum. Ásgeir hefur störf hjá TM á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Markús Hörður Árnason, framkvæmdastjóri fjárfestinga TM, óskaði eftir að láta af störfum hjá félaginu. Markús hefur starfað hjá TM frá árinu 2008, fyrst sem sérfræðingur á sviði fjárfestinga og síðar forstöðumaður fjárfestinga. Frá árinu 2020 hefur hann gengt stöðu framkvæmdastjóra fjárfestinga og setið í framkvæmdastjórn TM. Markús lætur af störfum á næstu vikum.

„Ég vil þakka Markúsi hans dýrmæta framlag til TM á þeim þrettán árum sem hann hefur starfað hjá félaginu. Á þessum tíma hefur ávöxtun fjáreigna TM verið framúrskarandi. Ég óska Markúsi alls hins besta á nýjum vettvangi.

Um leið og ég kveð Markús býð ég Ásgeir velkominn í öflugt lið starfsmanna TM,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.