Hátæknifyrirtækið atNorth, sem rekur gagnaver og ofurtölvuþjónustu á Íslandi og í Svíþjóð, hefur ráðið Ásdísi Ólafsdóttur í starf umhverfis-, samfélags- og stjórnháttastjóra félagsins.

Ásdís mun stýra umhverfis- og samfélagsmálum atNorth ásamt sjálfbærniverkefnum. Hún verður ábyrg fyrir samstarfi og samhæfingu á þessum sviðum milli ólíkra starfsstöðva atNorth, sem rekur þrjú gagnaver í tveimur löndum og hyggur á frekari uppbygginu á næstu árum.

„Það er mjög ánægjulegt að fá Ásdísi til liðs við okkur, enda býr hún bæði yfir mikilli þekkingu og ástríðu fyrir þessum málaflokkum. Við höfum sett okkur háleit markmið í þeim og uppfyllum ströngustu staðla og kröfur. Það kemur í hlut Ásdísar að fylgja því eftir og tryggja að okkar framtíðarsýn á þessu sviði raungerist,“ segir Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri atNorth.

„Við bjóðum Ásdísi hjartanlega velkomna í hópinn og við hlökkum til að ná enn betri árangri en hingað til, með hana innanborðs.“

Frá stofnun hefur atNorth lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og að lágmarka umhverfisáhrifin af starfseminni. Gagnaver félagsins eru knúin endurnýjanlegri orku, þau eru hönnuð til að hámarka orkunýtingu og lágmarka þannig tækjaþörf og sóun. Þá hefur atNorth farið nýjar leiðir í umhverfismálum og m.a. nýtt afgangsvarma úr gagnaveri sínu í Svíþjóð til húshitunar í samstarfi við orkuveituna í Stokkhólmi. Sá varmi dugar til að hita allt að 20 þúsund íbúðir í nágrenni gagnaversins.

Ásdís kemur til atNorth frá Isavia, þar sem hún vann m.a. að innleiðingu og viðhaldi á gæða- og öryggiskerfum, ISO 45001 og 14001, og notkun grænna skrefa í starfseminni, til að auka vellíðan starfsmanna, bæta starfsumhverfi þeirra, draga úr rekstrarkostnaði og innleiða samþykktar áherslur í umhverfismálum. Áður starfaði hún hjá Keili, við kennslu og verkefnastjórn. Hún er með meistaragráðu í líffræði frá Háskóla Íslands.

„Ég er mjög spennt fyrir því að ganga til liðs við atNorth. Fyrirtækið er frumkvöðull á sínu sviði og starfsfólk er drifið áfram af metnaði til að bæta samfélagið, með ábyrgum rekstri og framsæknum lausnum. Ég sé mörg tækifæri og er bjartsýn á frekari vöxt þessa framsýna félags,“ segir Ásdís.