Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), er á meðal umsækjenda um starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugaleikasviðs Seðlabanka Íslands, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Ásdís, sem er hagfræðingur að mennt, hefur stýrt efnahagssviði SA frá árinu 2013 en þar áður var hún forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Þá skipaði hún einnig þriggja manna starfshóp, ásamt meðal annars Ásgeiri Jónssyni, sem var nýlega skipaður seðlabankastjóri, sem skilaði af sér skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu í júní árið 2018.

Starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans var auglýst laust til umsóknar í síðasta mánuði en umsóknarfrestur rann út fyrir viku.

Í auglýsingu um starfið kom kom meðal annars fram að meginviðfangsefni sviðsins væri greining á áhættu í fjármálakerfinu og þátttöku í mótun varrúðarreglna fyrir fjármálakerfið. Frá og með áramótum verður öll starfsemi tengd fjármálastöðugleika sameinuð í Seðlabankanum þegar sameining bankans og Fjármálaeftirlitisins gengur í garð.

Þá annast fjármálastöðugleikasvið umsýslu fyrir kerfisáhættunefnd sem starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð en frá og með áramótum mun sviðið annast umsýslu nýrrar nefndar, fjármálastöðugleikanefndar, sem mun taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans varðandi fjármálastöðugleika.

Harpa Jónsdóttir gegndi áður starfi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs en hún lét af störfum fyrr á árinu þegar hún var ráðin framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.