Ásbjörn, sem er 28 ára gamall Eskfirðingur, hóf störf hjá Torgi í febrúar síðastliðnum sem markaðssérfræðingur. Fyrir hafði hann starfað í nokkur ár í ýmsum markaðstengdum verkefnum fyrir fyrirtæki og stofnanir í Danmörku og á Íslandi. Þar má nefna meðal annars Copenhagen Architecture Festival, Fjarðabyggð, Ask Taproom og Pizzeria, Samfylkinguna, SÍM, Almannaróm, Netgíró og Múla Craft Brew.

Ásbjörn hefur AP-gráðu í margmiðlunarhönnun og samskiptum og BA-gráðu í hönnun og viðskiptafræði með hönnun markaðssamskipta sem aðalgrein frá Københavns Erhversakademi og meistaragráðu í stjórnun nýsköpunar frá Háskólanum í Reykjavík.

Í nýja starfinu verður Ásbjörn með markaðssetningu, ásýnd miðla og vörumerkja Torgs og samfélagsmiðla á sinni könnu.

„Ég hlakka til að vinna með frábæru fólki við að gera góða miðla enn betri. Umhverfi fjölmiðla hefur breyst mikið á undanförnum árum með tilkomu stafrænna lausna og nýrra boðleiða. Það er því mikilvægt fyrir fjölmiðil eins og okkur að horfa til framtíðar og búa til frjóan farveg fyrir markaðsstarf okkar. Á næstu mánuðum förum við í metnaðarfull verkefni sem snúa að bættri þjónustu við lesendur, áhorfendur, hlustendur, notendur og auglýsendur okkar miðla. Ég er spenntur að taka þátt í þeirri vegferð og þakklátur fyrir traustið sem mér er sýnt,“ segir Ásbjörn.

Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og dagskrársviðs Torgs, lýsir ánægju sinni með að fá Ásbjörn til starfa. „Markaðsmál taka sífelldum breytingum og við fögnum því að fá Ásbjörn í hópinn með sína þekkingu, reynslu og kraft. Fram undan eru spennandi verkefni á spennandi tímum,“ segir Guðmundur Örn. ■