Fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV og Stundin birtu í gær umfjöllun um starfsemi útgerðarfélagsins Samherja í Namibíu. Var hún gerð í samstarfi við Wikileaks og fréttastöðina Al Jazeera.

Í umfjölluninni var sagt frá nánum tengslum stjórnenda Samherja við stjórnmálamenn stjórnarflokksins SWAPO og greiðslum til þeirra fyrir ódýran sjófrystikvóta á hrossamakríl hjá Fishcor, ríkisútgerðar Namibíu.

„Ég braut lög fyrir hönd Samherja,“ sagði Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi rekstrarstjóri fyrirtækisins í Namibíu í þættinum. „Þeir sem lögðu þessar línur voru Þorsteinn Már (Baldvinsson) og Aðalsteinn (Helgason).“

Sagðist hann meðal annars hafa greitt 60 þúsund Bandaríkjadollara til sjávarútvegsráðherra landsins eftir skipun Aðalsteins Helgasonar, framkvæmdastjóra Afríkustarfsemi Samherja. Slóðin hafi síðan verið falin með bókhaldsbrellum. Væri þetta kallað kvótagjald (facilitation fee).

„Það voru gerðir reikningar til að réttlæta þetta í bókhaldi, ráðgjafasamningar og húsealeigusamningar,“ segir Jóhannes í viðtali í Kveik í kvöld. „Samherji lenti ekkert í því að þurfa að greiða mútur til ráðamanna,“

Sagan er rakin frá þeim tíma þegar Íslendingar stunduðu þróunaraðstoð í landinu. En eftir henni var hætt, árið 2010, komu Samherji inn í skarðið. Sagt er að ein af helstu ástæðunum fyrir að útgerðarfyrirtækið hafi leitað á þessi mið hafi verið landlæg spilling sem hægt væri að nýta sér og gott viðhorf til Íslands eftir þróunaraðstoðina. Síðar hafi þessi umsvif færst til nágrannaríkisins, Angóla, og að hagnaðinum hafi verið komið úr landi í gegnum skattakjól eins og Máritíus eyjar.

Greint var frá því að vatnaskil hafi orðið í nóvember árið 2011, þegar fundur fór fram á Hilton hótelinu í höfuðborginni Windhoek, með Tamson Hatukulipi, tengdasyni sjávarútvegsráðherrans. Hann ásamt tveimur öðrum, kallaðir „hákarlarnir“, hafi síðar orðið milligöngumenn á milli Samherja og stjórnvalda í Namibíu.

Ekki náðist í stjórnendur Samherja fyrir vinnslu þessarar fréttar. Í tilkynningu Samherja frá því í gær segir að þar til niðurstöður rannsóknar norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein liggja fyrir munum Samherji ekki svara fyrir einstakar ásakanir. Lögmannsskrifstodan var ráðin til að framkvæma rannsókn á starfsemi Samherja í Afríku.