Ása Björg Tryggvadóttir tók við starfi framkvæmdastjóra brandr í byrjun janúar. Áður starfaði hún sem markaðsstjóri Bestseller ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Samhliða störfum sínum hjá Bestseller gengdi hún einnig starfi markaðsstjóra Nespresso þegar fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi árið 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Ég hlakka mikið til að vinna með flottum hópi sérfræðinga hjá brandr sem eru á frábærri vegferð við að styrkja stöðu markaðsmála með faglegri vinnu í rannsóknum og stefnumótun fyrir öflug íslensk vörumerki,“ segir Ása.

Ása var áður markaðsráðgjafi hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu og kom að verkefnum fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki. Ása hóf ferilinn í markaðsdeild Heklu þar sem hún vann fyrir Volkswagen, Audi og Benz .

Ása lærði viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík og hefur alla tíð haft mikinn áhuga á markaðsmálum og heilbrigði vörumerkja.

Friðik Larsen, eigandi brandr.
Mynd/Aðsend

„Við erum afar ánægð með að Ása er gengin í okkar raðir,“ segir Friðik Larsen, eigandi brandr, „því hún hefur bæði mikla reynslu markaðsmálum og ráðgjöf og ennfremur býr hún yfir reynslu í rekstri. Hún mun stýra starfsemi félagsins á Íslandi og hjálpa okkar viðskiptavinum að auka virði sinna vörumerkja. Með komu hennar mun ég einbeita mér meira að skrifstofum brandr í Berlín og Osló en við munum opna á síðarnefnda staðnum á næstu vikum.“

brandr vinnur með íslenskum fyrirtækjum í markaðsmálum og vörumerkjastjórnun og er ráðgefandi við að skilgreina tækifæri og ógnanir sem liggja á markaði, ásamt því að takast á við þær áskoranir sem fylgja breytingum á ásýnd og stefnu. brandr framkvæmir úttektir á vörumerkjum í þessu skyni, ásamt því að veita margvísleg gagnagreiningu. Þá veitir fyrirtækið einnig bestu íslensku vörumerkjunum viðurkenningar ár hvert.