Ársvinnutími starfsfólks á Íslandi er sá sjötti stysti af OECD-ríkjunum. „Ársvinnutíminn á Íslandi hefur styst mikið undanfarinn áratug án íhlutunar löggjafarvaldsins eða breytinga á vinnutímaákvæðum kjarasamninga. Stærsta skýringin er að dregið hefur úr yfirvinnu,“ segir í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins segja að á undanförnum árum hafi frumvörp um íhlutun í vinnutímaákvæði kjarasamninga ítrekað verið lögð fram á Alþingi til að stytta vinnuvikuna um fimm stundir. Megin röksemd fyrir íhlutuninni hafi verið sú að vinnutími sé óhóflega langur á Íslandi miðað við aðrar þjóðir með tilvísun í tölur OECD. Í greinargerð frumvarpsins segir meðal annars:

„Í skýrslum OECD þar sem mælt er jafnvægi milli vinnu og frítíma sést að Ísland kemur mjög illa út. Þar er landið í 33. sæti af 38 þjóðum þegar kemur að lengd vinnutíma ... Í tölum OECD fyrir árið 2016 um meðalársfjölda vinnustunda er Ísland í 25. sæti með 1.883 vinnustundir á móti 1.363 stundum meðal Þjóðverja, sem eru í fyrsta sæti með stystan vinnutíma, en Danir hafa næststystan vinnutíma, 1.410 stundir. ... Erfitt er að bera saman fjölda vinnustunda milli landa af ýmsum ástæðum en gögnin frá OECD eru þau bestu sem tiltæk eru. Þegar fjöldi vinnustunda og jafnvægi milli vinnu og frítíma á Íslandi er borið saman við ástandið í öðrum löndum sjást greinileg merki um slæma stöðu Íslands.“

Staða Íslands ekki eins slæm og rakin er í frumvarpi

Samtök atvinnulífsins segja að nýjar tölur OECD um einn stysta meðal ársvinnutíma sem um getur sýna að staða Íslands sé ekki eins slæm og rakið er í greinargerð frumvarpsins sem ætti að gefa flutningsmönnum tilefni til að endurskoða þessi lagasetningaráform.

Samkvæmt OECD var ársvinnutími að meðaltali 1.469 stundir á Íslandi árið 2018. Stystur var hann í Þýskalandi, 1.363 stundir, og þar á eftir komu Danmörk og Noregur með um 1.400 stundir. Meðaltal í OECD-ríkjunum var 1.734 stundir

Árið 2008 var meðal ársvinnutími á Íslandi 1.486 stundir og um 120 stundum lengri en að meðaltali annars staðar á Norðurlöndunum. Milli áranna 2008 og 2018 styttist ársvinnutíminn á Íslandi um 140 stundir en mun minna í hinum löndunum. Árið 2018 var meðal ársvinnutími á Íslandi svipaður og að meðaltali á Norðurlöndunum, 50-80 stundum lengri en í Noregi og Danmörku en svipaður og í Svíþjóð en tæpum 90 stundum styttri en í Finnlandi.

Tölurnar voru endurskoðaðar

OECD hefur nýverið endurskoðað íslensku vinnutímatölurnar til lækkunar. Sem dæmi má nefna að árið 2016 áætlaði OECD að meðal ársvinnutími á Íslandi hefði verið 1.864 stundir árið 2016 en nú áætlar stofnunin að ársvinnutíminn hafi verið 1.503 stundir það ár. Munurinn er rúmlega 361 stund eða sem svarar níu vinnuvikum, segir í fréttinni.

Upplýsingar OECD um ársvinnutíma eiga að endurspegla raunverulega unnar vinnustundir starfsmanna og samkvæmt því skal ekki telja greidda tíma í orlofi, á sérstökum frídögum, í veikindum, fæðingarorlofi og svo framvegis.