Síðastliðna tólf mánuði hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 24 prósent. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár. Árshækkun íbúðaverðs er nú orðin meiri en árið 2017 og hefur ekki mælst meiri frá árinu 2006.

Vísitalan hækkaði um 3 prósent milli mánaða, síðastliðna 3 mánuði hækkaði hún um 9,1 prósent og síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 15,7 prósent.

Í greiningu Íslandsbanka kemur fram að forsendur séu fyrir því að íbúðaverð haldi áfram að hækka á allra næstu mánuðum.

„Vonandi verður framboð nýrra íbúða auk dvínandi eftirspurnar þó nóg til að hægja á verðhækkunum síðar á þessu ári. Í þjóðhagsspá okkar frá því í maí spáðum við því að íbúðaverð hækki um ríflega 22 prósent í ár en hægjast muni talsvert á hækkunartaktinum þegar líða tekur á þetta ár og um mitt ár verði komin ró á markaðinn,“ segir í greiningunni.