Arnór Gunnarsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS, hefur keypt í tryggingafélaginu fyrir 14,7 milljónir króna. Þetta kemur fram í flöggun til Kauphallarinnar.

Markaðsvirði hlutabréfaeignar hans í VÍS nemur samtals 35,3 milljónum króna. Gengi hlutabréfa VÍS hefur hækkað um 48 prósent á einu ári.

Kaupin fóru fram í gegnum fjárfestingafélagið YNWA. Árið 2019 nam eigið fé YNWA 46,4 milljónum króna en árið 2018 var hlutafé þess lækkað um 10 milljónir króna, að því er fram kemur í nýjasta opinbera ársreikningi félagsins.

Arnór var ráðin til VÍS árið 2017. Áður hafði hann starfað sem forstöðumaður hlutabréfa hjá Öldu sjóðum. Hann hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2001.