Árni Pétur Jónsson hefur verið ráðinn forstjóri Skeljungs. Árni var síðast forstjóri 10-11 og Iceland, en lét af störfum í fyrra þegar hann seldi hlut sinn í Basko, rekstrarfélagi verslananna tveggja. Ráðning Árna tekur gildi í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá Kauphöllinni að Árni hafi meðal annars starfað hjá fyrirtækjum á borð við Debenhams, Zara, Topshop og Vodafone. Þá hafi hann verið forstjóri Teymis hf þegar það var skráð í Kauphöll Íslands.

„Árni Pétur hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, ýmist sem stjórnarmaður eða stjórnarformaður. Má þar nefna fyrirtæki s.s. Lyfja, Securitas, Skeljungur, Penninn, Borgun og Eldum rétt. Þá hefur Árni Pétur komið að rekstri símafyrirtækisins Kall í Færeyjum og Bónus í Færeyjum,“ segir í tilkynningunni.

Árni segist í tilkynningunni hlakka til að takast á við verkefnið. „Ég þekki Skeljung vel og veit að þar starfar öflugt og reynslumikið fólk. Starfsemi okkar á Íslandi og í Færeyjum byggir á traustum grunni sem við ætlum að halda áfram að þróa. Rekstrarumhverfi fyrirtækisins hefur og mun taka breytingum á næstu árum, sem gerir starfið mjög áhugavert,“ segir hann.