Árni Oddur Þórðar­son, for­stjóri Marel, var lang­launa­hæsti for­stjóri landsins í fyrra af skráðum fé­lögum. Árni Oddur var með rúma 41 milljón króna í mánaðar­laun í fyrra sam­kvæmt á­lagninga­skrá Ríkis­skatt­stjóra sem lögð hefur verið fram.

Tekið skal fram að fjár­magns­tekjur for­stjóranna eru ekki inn í þessari tölu heldur ber­strípuð mánaðar­laun. Þá geta for­stjórarnir verið að fá laun frá öðrum fyrir­tækjum að auki. Það gildir aug­ljós­lega um Árna Odd sem var með mánaðar­laun upp á rúmar 11,1 milljón króna frá Marel sam­kvæmt árs­reikningi Marel en hann hefur hags­muni víða í ís­lensku at­vinnu­lífi.

Margrét B. Tryggva­dóttir, for­stjóri Nova, er í öðru sæti for­stjóra­listans með um 9,3 milljónir króna á mánuði en Finnur Odds­son, for­stjóri Haga, er þriðji á listanum með rúmar 7 milljónir króna mánuði.

Aðrir for­stjórar eru með mánaðar­laun frá 5,4 milljónum króna og niður í 3,4 milljónir.

Bene­dikt Gísla­son, banka­stjóri Arion banka, er launa­hæstur ís­lensku banka­stjóranna með rúmar 4,5 milljónir króna, rúmum 300 þúsund krónum meira en Birna Einars­dóttir, banka­stjóri Ís­lands­banka.

Árni Oddur Þórðar­son, for­stjóri Marels, fékk greiddar sam­tals 935 þúsund evrur, jafn­virði um 133 milljónir ís­lenskra króna á gengi dagsins í dag, í laun, hlunnindi og kaupa­auka­greiðslur á árinu 2021. Það jafn­gildir mánaðar­launum upp á tæp­lega 11,1 milljónir króna frá fyrirtækinu.

Frétta­blaðið mun í sam­starfi við DV birta fréttir úr á­lagninga­skrá Ríkis­skatt­stjóra sem munu birtast í dag og næstu daga.

Hér fyrir neðan má sjá listann yfir forstjóranna:

 • Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, 41.057.472
 • Margrét B. Tryggvadóttir, forstjóri NOVA, 9.303.181
 • Finnur Oddsson, forstjóri Haga, 7.025.788
 • Orri Hauksson, forstjóri Símans, 5.392.160
 • Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group, 5.297.867
 • Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar, 4.631.421
 • Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, 4.552.382
 • Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka, 4.513.057
 • Gunnþór Björn Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, 4.441.081
 • Eggert Þór Kristófersson, fyrrv. forstjóri Festi, 4.425.873
 • Jón Björnsson, forstjóri Origo, 4.378.642
 • Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og fyrrv. forstjóri Sýnar, 4.259.825
 • Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL fjárfestingafélags, 4.230.731
 • Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, 4.213.606
 • Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, 4.167.463
 • Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, 3.990.432
 • Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim, 3.501.219
 • Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Reginn fasteignafélags, 3.485.456
 • Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, 3.463.473
 • Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International, 3.420.894
 • Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eik fasteignafélags, 3.275.101