Árni Hrannar Haralds­son hefur verið ráðinn í starf fram­kvæmda­stjóra Orku náttúrunnar og mun hann hefja störf þann 1. maí næst­komandi.

Í frétta­til­kynningu frá Orku náttúrunnar kemur fram að Árni Hrannar búi yfir mikilli reynslu sem stjórnandi síðast­liðin tuttugu ár, bæði hér­lendis og er­lendis.

Síðustu ár hefur Árni starfað sem fram­kvæmda­stjóri að­fanga­keðju MSPharma, sem er al­þjóð­legt lyfja­fyrir­tæki með starf­semi víða um heim, en hann hefur verið bú­settur í Sviss frá árinu 2011. Þá hefur hann einnig gegnt lykil­hlut­verkum hjá Acta­vis, 66°Norður og Xantis Pharma í Sviss.

„Árni Hrannar hefur mikla al­þjóð­lega reynslu sem yfir­maður í markaðs­leiðandi lyfja­fyrir­tækjum. Þá hefur hann yfir­grips­mikla og fjöl­breytta þekkingu á öllum sviðum virðis­keðjunnar hvort sem það eru inn­kaup, rekstur, fram­leiðsla eða stýring á flóknum að­fanga­keðju­ferlum sem dæmi. Þetta eru allt hlutir sem munu nýtast okkar fyrir­tæki vel auk þess sem metnaður og sýn Árna Hrannars fer vel saman við þá veg­ferð sem Orka náttúrunnar er á,“ er haft eftir Helgu Jóns­dóttur stjórnar­for­manni ON.

„Ég hlakka til að leiða öfluga starf­semi Orku náttúrunnar og halda á­fram upp­byggingu fyrir­tækisins á Ís­landi. Að vinna í góðum hópi fólks að á­byrgri nýtingu auð­linda Ís­lands sam­fé­laginu til góða er að mínu mati mikil for­réttindi,“ segir Árni Hrannar Haralds­son, ný­ráðinn fram­kvæmda­stjóri ON.