Arnarlax, stærsta laxeldi landsins, tapaði 30 milljónum norskra króna, jafnvirði um 449 milljóna króna, á öðrum fjórðungi, fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT). Til samanburðar hagnaðist laxeldið um 26 milljónir norskar, á sama mælikvarða á sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í uppgjöri norska laxeldisins SalMar sem á meirihluta í Arnarlaxi.

Á fyrri helmingi ársins tapaði Arnarlax níu milljónum norskra króna, jafnvirði 135 milljóna króna, samanborið við 51 milljónar norskra króna hagnað, jafnvirði 766 milljóna króna, á sama tíma fyrir ári.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, segir að afkoman á fyrri hluta ársins litist af miklum kostnaði sem rekja megi til affalla á seiðum sem sleppt var árið 2018, en talsverð afföll urðu í byrjun árs af völdum vetrarsára. Jafnframt hafi vinnslan legið niðri í júní á meðan unnið var að aukinni afkastagetu á Bíldudal.

Binda vonir við næstu uppskeru

„Við bindum miklar vonir við uppskeru sem hefst á næstu vikum,“ segir hann en þeim seiðum var sleppt í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að 90 prósent af sölunni í apríl og maí hafi verið þegar verð á eldislaxi var lágt. „Söluverð afurða var heldur lágt en ástandið á helstu mörkuðum er viðkvæmt og dreifileiðir mun snúnari en áður var. COVID-19 hefur gert það að verkum að flugsamgöngur eru skertar og stopular,“ segir Kjartan.

Hann segir að heimsfaraldurinn hafi sömuleiðis áhrif á sölu á eldislaxi, því hótel og veitingahús víða um heim „eru í öldudal eins og þekkt er þessi misserin“.

Kjartan segir að eftirspurn eftir eldislaxi sé mikil í smásölu. „Hágæðamatvæli eins og ferskur lax aðlagast aðstæðum og finna sér smám saman nýjar leiðir að neytandanum. Þessi misserin einbeitum við okkur að því að ná betur utan um rekstur og kostnað,“ segir hann.