Arnar Þór Másson var kjörinn stjórnarformaður Marels og Ólafur Guðmundsson, sem setið hefur í stjórninni frá árinu 2014, tók við sem varaformaður af Arnari Þór. Arnar Þór hefur setið samfellt í stjórninni frá árinu 2001. Aðalfundur Marels var haldinn í gær.

Ásthildur Margrét Otharsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en hún sat í stjórn Marels í ellefu ár, þar af sjö og hálft ár sem stjórnarformaður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ásthildur Margrét Otharsdóttir sat í stjórn Marels í ellefu ár, þar af í sjö og hálft ár sem stjórnarformaður.
Mynd/Marel

Dr. Svafa Grönfeldt, sem á sæti í stjórnum Össurar og Icelandair, kom ný inn í stjórn Marel. Hún gegnir stöðu prófessors við MIT háskólann í Boston og er einn af stofnendum MITdesignX sem er nýjasti viðskiptahraðall skólans. Hún er einnig meðstofnandi „The MET Fund” sem er sprotafjármögnunarsjóður í Cambridge, Massachusetts. Svafa starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Alvogen, rektor Háskólans í Reykjavík og aðstoðarforstjóri Actavis

Dr. Svafa Grönfeldt kemur ný inn í stjórn Marel

Arnar Þór er barnabarn Sigurðar Egilssonar, sem stofnaði fyrirtækið Sigurplast og var einn af þeim fyrstu sem keyptu hlutabréf í Marel. Hann er sjálfstætt starfandi við ráðgjöf við fjárfestingar í innviðum og endurnýjanlegri orku. Arnar var framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar hjá Isavia 2019-2020 og á árunum 2016-2019 sat hann fyrir Íslands hönd í stjórn European Bank for Reconstruction and Development (EBRD) í London.

Arnar Þór hefur boðið sig fram í stjórn Símans fyrir næsta aðalfund.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.

Árni Oddur Þórðarson, segir í skýrslu forstjóra að á sama tíma og „við höfum sett öryggi og velferð starfsmanna okkar og viðskiptavina í fyrsta sæti, höfum við mætt hverri áskorun með bjartsýni og þannig tryggt stöðugt framboð af öruggum og hagkvæmum matvælum sem eru framleidd á sjálfbæran hátt fyrir neytendur um heim allan. Stafrænar lausnir og víðfeðmt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum hafa á tímum heimsfaraldurs og ferðatakmarkana gert okkur kleift að þjónusta viðskiptavini í yfir 140 löndum.

Stafræn þróun er á ógnarhraða og betri nýting gagna og upplýsingatækni er nú þegar að umbylta virðiskeðju matvæla. Heimsfaraldurinn ýtir enn frekar undir fjárfestingar í sjálfvirkum, sveigjanlegum og sjálfbærum lausnum. Samkeppnisstaða Marel er góð og pípan af nýjum verkefnum lofar góðu, sérstaklega í sjálfvirkum lausnum sem styðja við sveigjanlega framleiðslugetu fyrir neytendamarkað og tilbúin matvæli. Gera verður ráð fyrir sveiflum á milli ársfjórðunga, sérstaklega nú á tímum umbreytinga og óvissu.“