Arn­ar Sig­urðsson, eig­andi San­tew­ines, hef­ur kært Ívar J. Arn­dal, for­stjóra ÁTVR, til lögreglu fyr­ir meintar rang­ar sak­argift­ir. Líkt og greint var frá fyrr í þessum mánuði kærði Ívar Arnar fyrir meint skattsvik. Taldi ÁTVR að Sante SAS væri að innheimta 11% virðisaukaskatt af seldum vörum án þess að vera með sérstakt virðisaukaskattsnúmer.

Í kæru Ívars, sem Markaðurinn hefur undir höndum, segir að stjórnendur ÁTVR haft horn í síðu hins franska félags Sante frá öndverðu. ÁTVR hafi tilkynnt opinberlega í maí að verið væri að undirbúa lögbannsbeiðni á hendur vefverslunum með áfengi og höfðun dómsmáls í framhaldi af því. Sú lögbannsbeiðni hafi hins vegar ekki verið lögð fram.

Í júní hafi ÁTVR tilkynnt að búið væri að tilkynna sýslumanni um meint brot hins íslenska félags Sante ehf. á skyldum sem á því hvílir samkvæmt áfengisheildsölu-, áfengisframleiðslu og áfengisinnflutningsleyfum.

Steininn hafi svo tekið steininn úr þegar Ívar kærði Arnar til lögreglu og skattayfirvalda.

„Staðreynd málsins er hins vegar sú að hið franska félag Santewines SAS er bæði með íslenska kennitölu og virðisaukaskattsnúmerið 140848, sem skráð voru hjá Skattinum í apríl,“ segir í kærunni. Þá segir að samkvæmt hegningarlögum skuli sá sem með rangri kæru leitast við að láta dæma saklausan mann eiga yfir höfði sér 10 ára fangelsi.

„Í kæru til lögreglu og skattayfirvalda fullyrðir kærandi að félag kærða hafi ekki virðisaukaskattsnúmer og sakar hann um stórfelld skattaundanskot. Brot í slíka veru eru eðlilega bæði alvarleg og ámælisverð, en ekki síst refsiverð,“ segir í kærunni.

„Eins og lýst er að framan hafði kæra kærða til lögreglu og skattayfirvalda enga stoð í raunveruleikanum. Þannig er ljóst að hið franska félag kæranda hafði fengið skráða kennitölu og virðisaukaskattsnúmer í apríl sl., og lítið mál að fá það staðfest. Aukinheldur var virðisaukaskattur Santewines SAS ekki fallinn í gjalddaga og því augljóst hverjum sem er, að alls ómögulegt að virðisaukaskatti hefði verið skotið undan. Má því ljóst telja að kærði hafi borið fram kæru sína gegn betri vitund, til þess eins að fá kærða sakaðan um refsiverðan verknað.“