Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hefur samið við Reykjavik Creamery í Pennsylvaníu um framleiðslu og sölu á vörum fyrirtækisins í Bandaríkjunum.

Fyrst um sinn verða vörur Örnu fluttar út frá Íslandi en síðar er stefnt að því að Reykjavík Creamery framleiði vörurnar í eigin verksmiðju í Pennsylvaníu.

Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu segir það oft hafa komið til tals að hefja innreið fyrirtækisins á markað í Bandaríkjunum.

„Við höfum í gegnum tíðina fengið fjölmargar fyrirspurnir að utan, frá aðilum sem lýst hafa yfir áhuga á að selja okkar vörur en höfum ekki talið það raunhæft nema með því að finna traustan framleiðanda sem býr yfir þekkingu og tækjabúnaði til að framleiða okkar vörur í samræmi við þær gæðakröfur sem við gerum. Við þekkjum til Reykjavik Creamery og höfum verið ráðgefandi með tæknimál hjá þeim. Við teljum þetta bæði rétta tímapunktinn og rétta framleiðandann."

Áhersla Örnu í Bandaríkjunum verður á laktósafría gríska jógúrt og skyr en þær vörur hafa notið vinsælda hér á landi undanfarin ár.

„Svo höfum við væntingar um að hafrajógúrtin, sem kemur í sölu hérlendis á næstunni, henti vel fyrir Bandaríkjamarkað. Þannig munum við nýta betur vöruþróunina sem við höfum lagt í á undanförnum árum. Á stærra markaðssvæði,“ segir Hálfdán.