Arion banki lagði til að skuldir viðskiptabanka sem eru komnar til vegna sértryggðrar skuldabréfaútgáfu yrðu undanskildar útreikningi á bankaskatti sem er í dag reiknaður sem hlutfall af heildarskuldum bankanna. Þannig mætti jafna stöðu viðskiptabanka og lífeyrissjóða, og stuðla að aukinni samkeppni um fasteignalán til einkstaklinga, einkum efnaminni fjölskyldna.

Þetta kom fram í umsögn Arion banka um frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem fól í sér að skatthlutfall bankaskatts yrði lækkað í fjórum áföngum, úr 0,376 prósentum í 0,145 prósent, á árunum 2021–2024. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í gær.

„Staðan á markaði fyrir húsnæðislán er með þeim hætti um þessar mundir að þeir sem eru efnameiri og eiga meira eigið fé geta fengið hagstæð lán hjá lífeyrissjóðum. Tekjulægri einstaklingar og fjölskyldur sem að jafnaði hafa minna eigið fé til ráðstöfunar til kauþa á íbúðarhúsnæði hafa ekki haft sama aðgengi að hagstæðum kjörum lífeyrissjóðanna,“ sagði í umsögn bankans.

Við verðlagningu fasteignalána sinna verða viðskiptabankarnir, öfugt við lífeyrissjóði, að gera ráð fyrir sérstökum bankaskatti sem leggst beint á alla fjármögnun þeirra, þar með talið sértryggða skuldabréfaútgáfu. Sértryggð skuldabréf námu samtals 445 milljörðum króna í bókum viðskiptabankanna í lok síðasta árs. Bankaskatturinn kemur til viðbótar við fjársýsluskatt á laun og sérstakan fjársýsluskatt á hagnað. Lífeyrissjóðir og aðrir samkeppnisaðilar viðskiptabankanna á fasteignalánamarkaði eru hins vegar undanþegnir greiðslu allra þessara skatta.

„Að mati bankans skýtur það skökku við að grípa til fjölmargra sértækra aðgerða til að auðvelda tilteknum hópum kaup á íbúðarhúsnæði á sama tíma og sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki torveldar sömu hópum að fjármagna kaupin og veldur því að greiðslubyrði er umtalsvert hærri en hún væri ef skattlagningin yrði aflögð,“ sagði í umsögn bankans.