Arion banki hefur til skoðunar að selja húsnæðið að Borgartúni 18 og færa starfsemi þess inn í höfuðstöðvarnar sem standa á móti. Þetta staðfestir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs, við Fréttablaðið.

Haraldur segir að Arion banki sé með húsnæðismálin í Borgartúni til skoðunar. Einn valkosturinn sé að flytja starfsemina í útibúinu í Borgartúni inn í höfuðstöðvarnar, að hluta eða öllu leyti, og þá hugsanlega selja húsnæðið að Borgartúni 18. Hins vegar hafi engin endanleg ákvörðun verið tekin.

Eins og Markaðurinn greindi frá í vetur hefur Arion banki boðið til sölu sex herbergja orlofshús í eigu bankans, sem aðeins æðstu stjórnendur hans hafa haft afnot af síðustu ár, í Hörgársveit í Eyjafirði.

Benedikt Gíslason, sem tók við starfi bankastjóra í júlí, sagði í viðtali við Markaðinn að bankinn væri á krossgötum um þessar mundir. „Það er stefnumótunarvinna í gangi innan bankans og ég held að við munu sjá viðskiptamódel sem byggir meira á milliliðahlutverki þar sem efnahagsreikningurinn er notaður með sértækari hætti og á því að veita þjónustu sem felur ekki í sér mikla eiginfjárbindingu,“ útskýrði Benedikt.

Þá greindi Viðskiptablaðið frá því í dag að Arion banki hefði til skoðunar að útvista innheimtustarfsemi bankans.