Arion banki sendi í dag út af­komu­við­vörun vegna dóms Héraðs­dóms Reykja­víkur sem féll í dag þar sem Valitor var dæmt til að greiða Suns­hine Press Productions og Datacell, rekstrar­fé­lagi Wiki­leaks, skaða­bætur sem nema 1,2 milljörðum króna.

Í til­kynningu bankans til Kaup­hallarinnar kemur fram að dómurinn muni hafa nei­kvæð á­hrif á sam­stæðu bankans á fyrsta árs­fjórðungi og nema á­hrifin rúmum 600 milljónum króna. Með til­liti til gjald­þrots flug­fé­lagsins WOW air og sölu bankans á eignar­hlut í Farice nemi á­hrifin á fyrsta árs­fjórðungi þá um 1,2 milljörðum króna.

Þá segir að dómurinn muni ekki hafa á­hrif á sölu­ferli Valitor og auk þess eru á­hrif dómsins á af­komu bankans á­ætluð lægri en ella vegna sam­komu­lags sem gert var þegar Arion banki keypti eignar­hlut Lands­bankans í Valitor Holding hf. árið 2014 en þar voru á­kvæði um hlut­deild seljanda í því tjóni sem Valitor gæti orðið fyrir í tengslum við málið.