Arion banki mun með haustinu hefja vinnu við að samtvinna tryggingafélagið Vörð við rekstur bankans. Vörður mun þó áfram starfa sem sjálfstætt félag undir sínu vörumerki en starfsemin flyst í Borgartún 19 með haustinu. „Við erum að hrinda af stað sókn á tryggingamarkaði. Þetta er að okkar mati farsælasta leiðin til að þess,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í samtali við Markaðinn.

Bankinn keypti Vörð fyrir um fimm árum. Á þeim tíma hefur markaðshlutdeildin aukist úr 14,6 prósentum í 17 prósent.

Hann segir að erlendis hafi þau tryggingafélög vaxið mest á undanförnum árum sem séu annað hvort í eigu banka eða í nánu samstarfi við banka. Horft sé meðal annars til árangurs DnB en eftir að norski bankinn fór að bjóða tryggingar samhliða annarri fjármálaþjónustu jókst markaðshlutdeildin frá því að vera fremur lítil í um fjórðung.

Benedikt segir að árangur slíks samstarfs megi þakka að starfsfólk í útibúum veiti nú í æ meiri mæli virðisaukandi þjónustu en ekki hefðbundin afgreiðslustörf. Jafnframt skipti stafrænar dreifileiðir meira máli og slagkraftur þeirra sé meiri þegar þær séu samnýttar. „Arion appið fær um 26 milljónir heimsókna á ári og það mun auka sýnileika á vöruframboði Varðar verulega,“ bendir hann á.

„Bankinn hefur ágæta yfirsýn yfir hvaða vörur henta hverjum viðskiptavini. Við stefnum á að fjölga viðskiptavinum beggja félaga, Arion banka og Varðar, en sóknin verður þó fyrst og fremst á vettvangi Varðar. Samstarfið skapar tækifæri til að auka tryggð og styrkja samband okkar við viðskiptavini. Þeir munu því njóta góðs af því að hafa þessa þjónustu á sömu hendi,“ segir Benedikt.

Samstarf Arion banka við Vörð verður að mörgu leyti sambærilegt samstarfinu við sjóðastýringuna Stefni. „Við nýtum styrk samstæðunnar. Þannig hefur Stefnir getað stækkað án þess að glíma við vaxtarverki sem tengjast innviðum. Sömu tækifæri felast í nánara samstarfi við Vörð. Tryggingafélagið mun geta vaxið án þess að glíma við vaxtarverki,“ segir hann.

Um 100 starfsmenn vinna hjá Verði. „Það verður áskorun að koma öllu starfsfólkinu fyrir í Borgartúninu. Við munum þurfa að horfa á skipulagið heildrænt og finna lausnir hvað það varðar. Það er eitt af verkefnum næstu vikna. Það kemur sér vel að við höfum unnið að endurbótum á höfuðstöðvunum til að styðja við opið skrifstofurými og frjálst sætaval. Auk þess mun starfsfólk okkar nýta fjarvinnu í auknum mæli og þannig getum við bætt sætanýtinguna í húsinu,“ segir Benedikt.